Lögreglan fær 355 milljónir vegna Silk Road

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Karl Steinar Valsson, yfirmaður miðlægrar ...
Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og Karl Steinar Valsson, yfirmaður miðlægrar deildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Deildin fer fyrir rannsóknum á skipulagðri brotastarfsemi og munu 355 milljónir frá bandarískum stjórnvöldum renna í nýjan löggæslusjóð og því varið til rannsóknar á skipulagðri brotastarfsemi. mbl.is/Eggert

Íslensk stjórnvöld hafa fengið tæpar þrjár milljónir dollara frá bandarískum stjórnvöldum vegna aðstoðar við upprætingu ólöglegu síðunnar Silk Road sem hýst var hér á landi. Féð hefur verið afhent og verður varið til rannsókna á skipulagðri brotastarfsemi. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. 

Upphæðin nemur 355 milljónum króna og er hún söluandvirði tugþúsunda bitcoina sem hýst voru í gagnaveri hér á landi. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aflaði mikilvægra gagna í rannsókn málsins sem leiddi til þess að hald var lagt á rafmyntina í samstilltum aðgerðum íslensku lögreglunnar og bandarísku alríkislögreglunnar í október 2013.

Alríkislögreglunni tókst í kjölfarið að hafa uppi á Ross Ul­bricht, sem stýrði vefsíðunni Silk Road þar sem fíkni­efni voru seld á svört­um markaði.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir í samtali við Fréttablaðið að eftir að ljóst var að upphæðin yrði lögð inn í ríkissjóð var ákveðið að hún rynni í sérstakan löggæslusjóð á forræði dómsmálaráðherra. 

Samkvæmt íslenskum lögum rennur upphæðin beint í ríkissjóð en ekki beint til lögreglu, en til þess þarf lagabreytingu. Áslaug Arna segir að við fjárveitingar úr sjóðnum verði tekið mið af tillögum nefndar sem skipuð var í kjölfar útkomu skýrslu ríkislögreglustjóra um skipulagða brotastarfsemi í vor. 

mbl.is