„Staðan er grafalvarleg“ á Reykjalundi

Starfsmannafundur verður í Reykjalundi í dag.
Starfsmannafundur verður í Reykjalundi í dag. Ljósmynd/Stjórnarráðið

„Staðan er grafalvarleg,“ segir Jón Gunnar Þorsteinsson, sjúkraþjálfari á Reykjalundi, um ástandið þar. Allir sjúklingar sem eru í endurhæfingu á Reykjalundi voru sendir heim í dag. Ástæðan er sú að starfsfólkið sem sinnir þeim segist ekki geta borið ábyrgð á endurhæfingunni því Magnúsi Ólasyni, framkvæmdastjóra lækninga, var sagt upp störfum í gær.

Megn óánægja er meðal starfsfólks vegna „yfirgangs stjórnarformanns SÍBS,“ segir Jón Gunnar. Þar vega þungt þær ákvarðanir stjórnar SÍBS að segja upp Magnúsi eftir áratuga starf, nokkrum vikum fyrir áætluð starfslok, sem og starfslokasamningur sem var gerður við forstjóra Reykjalundar Birgi Gunnarsson í lok síðasta mánaðar. Hann hafði starfað á Reykjalundi í yfir áratug. Birgir kvaddi ekki starfsfólkið við starfslokin og engar útskýringar voru gefnar starfsfólki þegar hann lauk störfum. Starfsmenn telja að honum hafi verið sagt upp þrátt fyrir yfirlýsingar stjórnar SÍBS um að gerður hafi verið starfslokasamningur við hann. 

Boðað hefur verið til starfsmannafundar í dag kl. 12. 

Sveinn Guðmunds­son stjórn­ar­formaður SÍBS er starfandi forstjóri Reykjalundar eftir að Birgir lauk starfi. 

mbl.is