Starfsemi Reykjalundar í eðlilegu horfi á morgun

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Starfsemi Reykjalundar verður í eðlilegu horfi á morgun, að sögn Magdalenu Ásgeirsdóttur læknis á endurhæfingarstofnuninni. Í samtali við mbl.is kveðst hún að minnsta kosti ekki vita betur en að svo verði, en eins og greint var frá í fjölmiðlum var sjúklingum endurhæfingarmiðstöðvarinnar vísað frá í dag.

Ástæðan var sú að starfsfólk sem sinnti endurhæfingunni kvaðst ekki geta borið ábyrgð á endurhæfingunni, sökum uppsagnar Magnúsar Ólasonar, sem var framkvæmdastjóri lækninga á Reykjalundi þar til í gær.

Kraumandi óánægja er með uppsögn hans innan starfsliðs Reykjalundar og einnig með uppsögn forstjórans fyrrverandi, Birgis Gunnarssonar. Starfsfólkið kom saman til fundar í dag og rúmlega eitt hundrað starfsmenn lýstu í kjölfarið yfir vantrausti á stjórn Reykjalundar.

Á fundinum kom Sveinn Guðmundsson, formaður SÍBS og starfandi forstjóri Reykjalundar, því á framfæri við starfsfólk að það bæri skyldur gagnvart sjúklingum sem Reykjalund sækja. Sagði hann í kjölfarið að hann teldi alla starfsmenn gera sér grein fyrir því að sú væri frumskyldan.

Ráðherra tjáir sig ekki að svo stöddu

Í yfirlýsingu starfsmanna kom fram að starfsfólkið teldi Reykjalund vera óstarf­hæfa heil­brigðis­stofn­un í ljósi aðstæðna og var þess krafist að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra gripi inn í stöðu mála með hverjum þeim hætti sem hún teldi sér heimilt.

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir í samtali við mbl.is að hún kjósi að tjá sig ekki um málefni Reykjalundar að svo stöddu.

mbl.is