Vilja draga úr losun koltvísýrings frá húsnæði

Ljósmynd/Félagsmálaráðuneytið

Fram kemur í yfirlýsingu sem byggingar- og húsnæðismálaráðherrar Norðurlandanna hafa komið sér saman að draga þurfi úr losun koltvísýrings frá húsnæði og byggingariðnaði á Norðurlöndum. Eins að greinin ætti að leggja aukna áherslu á hringrásarhagkerfi.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu en ráðherrarnir funduðu á Hótel Sögu í Reykjavík í dag. Fulltrúi Íslands var Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra. Ráðherrarnir vilja sömuleiðis sjá aukið norrænt samstarf til að efla samkeppni og lækka húsnæðiskostnað að því er segir í tilkynningunni.

Enn fremur segir að meira en þriðjungur af losun norrænu landanna á koltvísýringi komi frá húsnæði og byggingariðnaði. Því vilji ráðherrarnir bregðast við og hafi í því skyni komið sér saman um yfirlýsingu þar sem áhersla er lögð á þörfina fyrir aukið samstarf í því skyni að draga úr losun frá húsnæði og byggingariðnaði.

Samkvæmt yfirlýsingunni skuldbinda ráðherrarnir sig til að leitast við að vera í fararbroddi á heimsvísu í þessu efnum svo Norðurlönd geti orðið það svæði sem mest sækir fram í því að þróa lausnir sem draga úr losun í byggingariðnaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert