„Hálfgerð bíómyndasena“ er ekið var á rafskútumann í Borgartúni

Ungur maður á rafmagnshlaupahjóli í miðbænum. Myndin tengist fréttinni ekki …
Ungur maður á rafmagnshlaupahjóli í miðbænum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Hari

Ekið var á mann á rafmagnshlaupahjóli í Borgartúni í morgun og fór betur en á horfðist, samkvæmt sjónarvottum að óhappinu. Bifreið sem var á leið út úr hringtorgi við Höfðatorg ók á rafskútumanninn er sá síðarnefndi var á leiðinni yfir gatnamót við hringtorgið. Rafskútumaðurinn stóð upp og virtist ómeiddur. 

„Ég upplifði þetta eins og þetta væri hálfgerð bíómyndasena, hann kemur þarna og er að fara á hlaupahjólinu þarna yfir og svo kemur bíllinn og hægir ekki á sér í eina sekúndu sko, þannig að maðurinn kastast alveg upp á húddið og yfir bílinn. Ég átti ekki von á því að hann stigi upp aftur ómeiddur. Þetta leit svolítið illa út, en sem betur fer kom þetta betur út en á horfðist,“ segir Júlía Hrönn Guðmundsdóttir í samtali við mbl.is.

Báðir mennirnir í uppnámi

Júlía Hrönn kom að staðnum og ráðlagði ökumanni bílsins og manninum á rafskútunni, sem báðir voru í miklu uppnámi, að gera skýrslu um óhappið þrátt fyrir að enginn sjáanlegur skaði hefði orðið á líkama eða tækjum.

„Ég reyndi að passa upp á það þeir færu í þetta ferli eins og á að gera,“ segir Júlía, en sá sem ekið var á fór og fékk áverkavottorð í kjölfarið, enda mikilvægt að hafa slíkt við höndina ef eymsli koma fram síðar, eins og þekkt er að geti gerst. „Þetta getur komið fram tveimur dögum seinna eða jafnvel tveimur árum seinna og þá skiptir máli að það sé skráð rétt,“ segir Júlía.

Blaðamaður hrósar henni fyrir að hafa veitt mönnunum góða ráðgjöf, en það finnst Júlíu sjálfsagt. „Maður reynir að sýna ábyrgð í umferðinni eins og öðru, við tilheyrum öll sama samfélaginu og ef við viljum gott samfélag þá þurfum við að standa saman,“ segir Júlía.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði ekki heyrt af óhappinu er mbl.is hafði samband.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert