Fékk hótun eftir að hafa rætt við fjölmiðla

Reykjalundur.
Reykjalundur. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Starfsmaður Reykjalundar, sem ræddi málefni stofnunarinnar við fjölmiðla, fékk tölvupóst í kjölfarið frá aðila tengdum stjórn SÍBS sem túlka má sem hótun.

Þetta kemur meðal annars fram í yfirlýsingu frá starfsmönnum Reykjalundar sem send hefur verið á fjölmiðla. Þar segir að starfsmennirnir harmi það fordæmalausa ástand sem hafi skapast þegar framkvæmdastjóra lækninga, Magnúsi Ólasyni, hafi fyrirvaralaust verið vikið úr starfi síðdegis 9. október.

„Við brottvikningu framkvæmdastjóra lækninga þá skapaðist óvissuástand þar sem það embætti ber ábyrgð á faglegri þjónustu gagnvart forstjóra. Nú hefur þeirri óvissu verið eytt og er það ávallt forstjóri sem ber hina endanlegu ábyrgð á veitingu heilbrigðisþjónustu stofnunar. Starfsfólki Reykjalundar þykir miður að þetta ástand hafi bitnað á þeim skjólstæðingum stofnunarinnar sem voru til meðferðar á þessum tíma og valdið þeim vanlíðan,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni.

Starfsemi Reykjalundar hafi verið með eðlilegum hætti í dag og starfsfólk stofnunarinnar muni ávallt sinna sínum skjólstæðingum af fagmennsku og alúð og fylgja lögum í hvívetna. „Því miður gerðist það að starfsmaður Reykjalundar sem tjáði sig við fjölmiðla vegna ástandsins, fékk sendan tölvupóst frá aðila tengdum stjórn SÍBS sem túlka má sem hótun. Við slíkt er ekki unað.“

Undir yfirlýsinguna ritar Magdalena Ásgeirsdóttir, formaður læknaráðs Reykjalundar, fyrir hönd starfsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert