Hafa fjöllin hækkað?

Ólafur Elíasson í jöklaleiðangri í sumar.
Ólafur Elíasson í jöklaleiðangri í sumar. Ragnar Axelsson

„Ég hafði augljóslega áhyggjur vegna þess að í jarðfræðilegu samhengi eru tuttugu ár eins og nanósekúnda. Fyrir vikið var alveg eins víst að engar breytingar hefðu átt sér stað. Satt best að segja var ég að vonast eftir smávægilegum breytingum en á daginn kom að þær voru svo miklar að ég iðrast þess nú að hafa ekki gert aðra seríu fyrir tíu árum. Ég er í senn undrandi og sjokkeraður. Jökulsporðarnir hafa ekki aðeins breyst í þeim skilningi að þeir hafa hörfað til muna heldur hefur heildarrúmmál jöklanna einnig tekið breytingum, minnkað.“

Þetta segir Ólafur Elíasson myndlistarmaður í viðtali í norðurslóðablaði Morgunblaðsins, Björgum heiminum, en hann endurtók í sumar verk sem vakti mikla athygli fyrir tuttugu árum, Jöklaseríuna. 

„Ég tók mjög fljótt eftir þessu vegna þess hvað það var erfitt að fá myndirnar til að passa,“ heldur hann áfram. „Fjöllin beggja vegna jökulsporðanna virkuðu mun hærri, sem fékk mig til að efast um að ég væri á réttum stað þegar ég horfði á gömlu myndirnar. Það er ekki eins og líklegt væri að fjöllin hefðu hækkað. Það var sláandi að verða vitni að þessu. Annað sem kom mér í opna skjöldu var hversu stöðugt allir jöklarnir hafa minnkað; verulega hefur dregið úr þeim. Tökum Hofsjökul sem dæmi, en hann er í 1.765 metra hár. Ætti ekki jökullinn að bráðna hægar þar uppi? Þar var alltént kaldara að taka myndirnar.“

Fláajökull. 1999.
Fláajökull. 1999. Olafur Eliasson Detail of The glacier series, 1999/2019 Courtesy of the artist; neugerriemschneider, Berlin; Tanya Bonakdar Gallery, New York / Los Angeles © 2019 Olafur Eliasson


Er ég nægilega ábyrgur?

– Hvað finnst þér um þetta?

„Nýtt skeið er augljóslega runnið upp í samskiptum manns og loftslags. Hvað finnst mér um það? Tilfinningar mínar eru orðnar partur af tilfinningum almennings. Ég er ekki frá því að ég hafi vanmetið neyðina, þannig að ég velti eftirfarandi spurningu ítrekað fyrir mér: Er ég nægilega ábyrgur? Sennilega snýst þetta ekki lengur um hvað mér finnst. Það er tími til kominn að umorða spurninguna „hvað finnst mér?“ og spyrja í staðinn: „Hvernig á ég að bregðast við?“ Eins og við öll vitum þá skipta aðgerðir sköpum en ekki tilfinningar. Að finnast eitthvað eða hugsa um eitthvað dugar ekki lengur. Það leiðir okkur að spurningunni: Hvers konar aðgerðir duga? Að gera smá er gríðarlega mikilvægt, gæti vel verið þúfa sem veltir þungu hlassi. Í öllum mínum verkum skoða ég fjarlægðina milli þanka og gjörða og öll litlu skrefin þar á milli. Við lifum á tímum þar sem nauðsynlegt er meta allt sem við gerum út frá framtíðinni. Það er á svig við hugarfar minnar kynslóðar – við höfum byggt allar okkar gjörðir á fortíðinni. Ég meina, við stöndum á herðum fólks sem ruddi brautina og kom okkur hingað. Allt sem við vitum, öll okkar menntun, byggist á því sem einhver gerði í fortíðinni. Á sinn hátt er þetta íhaldssamt; örugg og alls ekki áhættusækin leið til að þroskast. Nema hvað nú hefur komið á daginn að fortíðin hafði á röngu að standa; fólki varð á í messunni. Raunar ítrekað. Tökum jarðefnaeldsneyti sem dæmi en það er um 175 ára gamalt. Við höfðum hundruð milljóna lífefna á jörðinni og á sekúndubroti í jarðfræðilegu samhengi hefur okkur tekist að klúðra málum.“

Fláajökull. 2019.
Fláajökull. 2019. Olafur Eliasson Detail of The glacier series, 1999/2019 Courtesy of the artist; neugerriemschneider, Berlin; Tanya Bonakdar Gallery, New York / Los Angeles © 2019 Olafur Eliasson

Í sumar var sýning á verkum Ólafs, In real life, opnuð í Tate Modern-galleríinu í Lundúnum og upphaflega ætlaði hann að vera búinn með seríuna fyrir þann tíma en nú verður henni bætt við sýninguna í endaðan nóvember. Sýningin verður einnig sett upp í Hafnarhúsinu í Reykjavík um líkt leyti. „Ég gat ekki byrjað að mynda þegar ég ætlaði mér vegna þess að ég varð að bíða eftir því að snjórinn bráðnaði svo ég gæti séð jöklana almennilega. Markmiðið var að gera alveg eins seríu, þannig að ég varð að vera þolinmóður.“ 

Nánar er rætt við Ólaf í norðurslóðablaðinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert