Orrustuþotur tóku á loft í Keflavík

Sex ítalskar orrustuþotur tóku á loft á Keflavíkurflugvelli í morgun, um svipað leyti og fyrsta MAX 8-þota Icelandair hóf sig til flugs í áætluðu ferjuflugi til Spánar. Því náði ljósmyndari mbl.is flugtaki einnar vélarinnar á myndskeið.

Orrustuþoturnar hafa þó enga tengingu við MAX-flotann, heldur er vera þeirra hér á landi liður í loft­rým­is­gæslu Atlants­hafs­banda­lags­ins (NATO). 

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fylgist grannt með æfingunum og eru þyrlur gæslunnar til taks ef á þarf að halda. 

Frá flugtaki orrustuþotu af gerðinni F-35 á Keflavíkurflugvelli í morgun. …
Frá flugtaki orrustuþotu af gerðinni F-35 á Keflavíkurflugvelli í morgun. Um 140 liðsmenn ít­alska flug­hers­ins taka þátt í loftrýmisgæslu NATO hér á landi þessa dagana. mbl.is/Hari

Vélarnar komu til landsins 26. september og munu sinna loftrýmisgæslu hér á landi til 24. október. Þetta er í fyrsta skipti sem F-35 orr­ustuþotur, sem flokk­ast und­ir 5. kyn­slóð orr­ustuþotna, eru notaðar til gæslu­verk­efna utan átaka­svæða. 

Alls taka um 140 liðsmenn ít­alska flug­hers­ins þátt í verk­efn­inu og til viðbót­ar starfs­menn frá stjórn­stöð NATO í Uedem í Þýskalandi. Aðflugsæfing­ar hafa verið á vara­flug­völl­um á Ak­ur­eyri og Eg­ils­stöðum og nú einnig í Keflavík. 

Flugsveit­in er með aðset­ur á ör­ygg­is­svæðinu á Kefla­vík­ur­flug­velli en þetta er í annað sinn á þessu ári sem ít­alski flug­her­inn er hér á landi við loft­rým­is­gæslu, en hann var síðast hér í mars. Þá sinntu Bandaríkjamenn loftrýmisgæslu hér á landi í sumar. 

Í nóvember mun svo konunglegi breski flugherinn koma hingað til lands og sinna loftrýmisgæslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert