Ríkið dæmt til að greiða bætur í Aserta-málum

Landsréttur
Landsréttur mbl.is/Hjörtur

Íslenska ríkið hefur verið dæmt til að greiða þeim Gísla Reynissyni og Karl Löve Jóhannssyni 2,5 milljónir hvorum í skaðabætur vegna Aserta-málsins svokallaða, en þeir voru báðir sakborningar í því máli áður en ríkissaksóknari féll frá kröfum í málinu þegar það var komið fyrir Hæstarétt árið 2016.

Héraðsdómur hafði komist að mismunandi niðurstöðu í málinu. Ingibjörg Þorsteinsdóttir héraðsdómari hafði dæmt íslenska ríkið til að greiða Gísla 1,4 milljónir vegna kyrrsetningar á eignum sem þóttu standa yfir og lengi og ummæla þáverandi yfirmanns efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, en fjölmiðlafundur var haldinn þegar málið kom upp.

Kjartan Bjarni Björgvinsson héraðsdómari hafði hins vegar komist að annarri niðurstöðu og sýknaði hann ríkið í sambærilegu skaðabótamáli Karls. Sagði þar að Karl hefði engin gögn lagt fram um fjárhagslegt tjón sem rekja megi til kyrrsetninganna. Hafi Karl Löve í „engu leit­ast við að sýna fram á hvaða fjár­hags­lega tjón megi rekja til hand­töku hans eða þeirr­ar hús­leit­ar sem gerð var hjá hon­um“. Þá sé það mat dóms­ins að Karl Löve hafi „sjálf­ur stuðlað að nokkru að þeim þving­un­araðgerðum sem beind­ust að hon­um og hans hags­mun­um“.

Landsréttur snýr þeirri niðurstöðu við og staðfestir skaðabótaskyldu í máli Gísla. Hins vegar eru bæturnar hækkaðar og eru sem fyrr segir 2,5 milljónir í hvoru máli.

Segir í dómum Landsréttar að saksóknaraembættið hafi ekki getað skýrt ástæður mikillar seinkunnar á rannsókn málsins, en þeir voru báðir með stöðu grunaðs manns í sex ár. Þá voru fasteignir áfrýjenda og ökutæki kyrrsett í allt að fimm ár. Tekur Landsréttur sérstaklega fram að sérstök ástæða hafi verið til að hraða meðferð málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert