„Við skulum hlæja að þeim í kvöld“

1:0. Ríkharður Daðason sést hér stökkva manna hæst og skalla …
1:0. Ríkharður Daðason sést hér stökkva manna hæst og skalla boltann í markið í leiknum á Laugardalsvelli 5. september 1998. Frakkarnir hlógu fyrir leik en var ekki hlátur í huga eftir 1:1-jafntefli liðanna. mbl.is/Rax

Tenórinn Jóhann Friðgeir Valdimarsson vonast til þess að íslenska landsliðið rassskelli það franska þegar liðin mætast í undankeppni EM í knattspyrnu í kvöld. Frakkarnir hlógu dátt þegar Jóhann söng franska þjóðsönginn fyrir leik liðanna árið 1998 en tenórinn erfir það ekki við frönsku kappana.

Knattspyrnusamband Íslands hugðist gera vel við Frakkana, sem þá líkt og nú voru ríkjandi heimsmeistarar. Jóhann Friðgeir hóf upp raust sína og söng La Marseillaise, þjóðsöng Frakka, en söngurinn vakti mikla kátínu.

Jóhann Friðgeir Valdimarsson.
Jóhann Friðgeir Valdimarsson. Ljósmynd/Aðsend

Hefði verið til í að syngja í kvöld

Frönsku heimsmeistararnir, þeirra á meðal fyrirliðinn og núverandi landsliðsþjálfari Didier Deschamps, skellihlógu. 

„Ég ætla að sjá leikinn í kvöld,“ segir Jóhann Friðgeir í samtali við mbl.is. Hann svarar því neitandi og hlær þegar hann er spurður hvort hann hafi verið beðinn um að syngja þjóðsöngvana fyrir leikinn. Tenórinn bætir því við að söngur hans skapi eflaust lukku fyrir íslenska liðið. 

„Ég held að það sé búið að banna söngvara fyrir mótsleiki. Þetta mætti ef það væri vináttuleikur,“ segir Jóhann Friðgeir, sem hefði að sjálfsögðu verið til í að spreyta sig aftur á La Marseillaise.

Pétur Marteinsson með knöttinn. Cristophe Dugarry, markaskorari Frakka 1998, og …
Pétur Marteinsson með knöttinn. Cristophe Dugarry, markaskorari Frakka 1998, og Hermann Hreiðarsson í glímu fyrir aftan Pétur. mbl.is/Golli

„Ég þoli ekki franska landsliðið“

Jóhann Friðgeir fullyrðir að hlátur frönsku heimsmeistaranna sitji ekki í honum. „Nei, alls ekki. Ég fékk alla athyglina!“ segir tenórinn og bendir á að Frakkarnir hafi verið byrjaðir að hlæja áður en hann söng:

Þeir hlógu líka þegar þeir tóku í höndina á Ólafi Ragnari [Grímssyni, þáverandi forseta Íslands] á undan og framkvæmdastjóra Alþjóða knattspyrnusambandsins. Þeir voru löngu byrjaðir að hlæja og svo söng ég. Ég fékk skellinn. Þeim fannst þetta allt æðislega fyndið.“ 

Jóhann Friðgeir segist vita hvað Frökkunum þótti svona fyndið en vill ekki gefa það upp. „Það er persónulegt fyrir þá, greyin. Þeir hlógu fyrir leik en ekki þegar þeir fóru. Þá hló ég, heima í stofu,“ segir Jóhann Friðgeir og heldur áfram:

„Við skulum hlæja að þeim í kvöld. Við tökum þá.“

Tenórinn er mjög bjartsýnn fyrir leik kvöldsins en karlalandsliðið hefur aldrei unnið það franska á knattspyrnuvellinum.

„Ég þoli ekki franska landsliðið. Það er bara þannig og ég vona að strákarnir taki þá og rassskelli þá.“

Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka, var fyrirliði þeirra í heimsókninni 1998. …
Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka, var fyrirliði þeirra í heimsókninni 1998. Hér sést hann heldur svekktur á svip. Hermann Hreiðarsson er kátir. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert