Efla samstarf um útgáfuna

Brynja Baldursdóttir og Haraldur Johannessen undirrituðu samninginn fyrir hönd fyrirtækjanna.
Brynja Baldursdóttir og Haraldur Johannessen undirrituðu samninginn fyrir hönd fyrirtækjanna. mbl.is/Kristinn Magnússon

Miðlar Árvakurs og CreditInfo á Íslandi hafa komist að samkomulagi um aukið samstarf í tengslum við verkefnið Framúrskarandi fyrirtæki sem síðarnefnda fyrirtækið hefur staðið fyrir síðastliðinn áratug.

Síðustu tvö ár hefur Morgunblaðið haldið utan um útgáfu sérblaðs um þau fyrirtæki sem komast á lista CreditInfo yfir framúrskarandi fyrirtæki. Í fyrra var einnig byggður upp vefur sem birtir listann og viðtöl við framkvæmdastjóra nokkurra fyrirtækja sem á honum eru. Samkvæmt nýjum samstarfssamningi mun Árvakur annast útgáfu Framúrskarandi-blaðsins næstu þrjú ár og þá er einnig stefnt að opnun nýs og endurbætts vefs sem heldur utan um fyrrnefndar upplýsingar. Haraldur Johannessen, framkvæmdastjóri Árvakurs og ritstjóri Morgunblaðsins, sagði ánægjulegt að samstarf fyrirtækjanna héldi áfram, enda hefði það reynst farsælt á síðustu árum. Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri CreditInfo á Íslandi, sagði samstarfið hafa gengið vel.

„Það er mikilvægt að koma upplýsingum um þau fyrirtæki sem eru framúrskarandi á framfæri. Þar nýtist styrkur þeirra fjölbreyttu miðla sem Árvakur hefur á að skipa mjög vel,“ sagði Brynja.

Listinn yfir Framúrskarandi fyrirtæki verður birtur 23. október næstkomandi. Sama dag stendur CreditInfo fyrir viðburði í Hörpu í tengslum við útgáfu listans og verður hann í beinni útsendingu á mbl.is. Hinn 24. október mun blaðið Framúrskarandi fyrirtæki fylgja Morgunblaðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert