Ekki einkamál okkar

Hafaldan skellur á suðurströnd Íslands.
Hafaldan skellur á suðurströnd Íslands. mbl.is/RAX

Að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra er enginn vafi á því að stórþjóðirnar sýni norðurslóðum nú aukinn áhuga. Þetta kemur fram í samtali við hana í norðurslóðablaði Morgunblaðsins, Björgum heiminum. 

„Það eru ekki bara Bandaríkjamenn sem sýna þessu svæði aukinn áhuga, við getum líka nefnt Kínverja í þessu sambandi og Evrópuþjóðir eins og Þjóðverja og Frakka sem hafa verið að móta sér stefnu í málaflokknum þó að þær eigi hvorki beina aðild að Norðurskautsráðinu né tilheyri norðurslóðum,“ segir Katrín í viðtalinu.

„Það segir sína sögu um mikilvægi norðurslóða og hlutverkið sem svæðið kemur til með að gegna í framtíðinni. Það sem hér gerist er ekki einkamál okkar sem hér búum enda getur það haft mikil áhrif langt út fyrir svæðið og raunar á allan heiminn. Og fyrst þú nefnir Bandaríkin þá hef ég notað báða þessa fundi, bæði með utanríkisráðherranum og varaforsetanum, til að ræða um loftslagsmál og setja þau í samhengi við norðurslóðir.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/RAX


– Er ekki óhætt að draga þá ályktun að vaxandi áhugi Kínverja á norðurslóðum hafi ýtt við Bandaríkjamönnum?

„Að sjálfsögðu, eins og sást svo glöggt í heimsókn varaforseta Bandaríkjanna hingað fyrir skömmu, þar sem hann átti töluvert í samtali við Kínverja í gegnum okkur.“

Hlustað er þegar Íslendingar tala um hafið

– Hvaða hlutverki höfum við Íslendingar að gegna í þessu tafli sem hafið er á norðurslóðum, með aðkomu stórveldanna, sem hér hafa verið nefnd, og fleiri öflugra þjóða?

Landselur við austurströnd Íslands.
Landselur við austurströnd Íslands. mbl.is/RAX


„Við höfum lagt mikla áherslu á að stíga varlega til jarðar og að þetta svæði, norðurslóðir, verði ekki leikvöllur vígvæðingar; bæði út frá alþjóðastjórnmálum og umhverfismálum. Við tókum við formennsku í Norðurskautsráðinu af Finnum fyrr á þessu ári og höfum lagt okkar áætlun á borðið, þar sem við leggjum ekki síst áherslu á hafið. Það er hlustað á okkur Íslendinga þegar við tölum um málefni hafsins á alþjóðavettvangi, við reiðum okkur á hafið, og við höfum verið að sjá breytingar á hafinu út af umhverfisbreytingum. Þess vegna er mjög mikilvægt að setja þau mál á oddinn. Nýlega var kynnt IPCC-skýrsla um hafið og ísinn á norðurslóðum og þar sáum við svart á hvítu að þarna hafa Íslendingar mjög mikið fram að færa. Við höfum sem dæmi verið að auka þungann í vöktun og rannsóknum á súrnun sjávar og erum sömuleiðis að setja aukið fé í jöklarannsóknir og vöktun. Hvort tveggja er þetta nátengt norðurslóðum enda segja vísindin okkur að loftslagsbreytingar eigi sér stað á tvöföldum hraða hér um slóðir. Við sem eigum lífsviðurværi okkar að stórum hluta undir auðlindum hafsins verðum því að vera kyndilberar í baráttunni gegn loftslagsvánni. Súrnun sjávar verður ekki stöðvuð nema með því að draga úr losun. Það er stóra ógnin sem blasir við norðurslóðum og í því sambandi verðum við öll að sitja við borðið. Það verður okkar upplegg innan Norðurskautsráðsins að ráðið sé vettvangur samtals en ekki átaka,“ segir Katrín og bætir við að einnig sé vitaskuld brýnt að hlúa að réttindum fólksins á norðurslóðum.

„Það gleymist stundum í hinni stórpólitísku umræðu hákarlanna að hérna býr fólk.“

Nánar er rætt við Katrínu í norðurslóðablaðinu, Björgum heiminum, sem fylgir Morgunblaðinu í dag.

Snjór sem féll fyrir 1.000 árum á hábungu Vatnajökuls bráðnar …
Snjór sem féll fyrir 1.000 árum á hábungu Vatnajökuls bráðnar nú í heimshöfin. mbl.is/RAX
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert