Fór nokkrar veltur og endaði á hliðinni

Ljósmynd/Aðsend

Fólkið, sem var í bifreiðinni sem lenti utan vegar á Snæfellsnesvegi um klukkan eitt í dag, er erlendir ferðamenn samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vesturlandi.

Fólkið varð allt fyrir meiðslum í slysinu og þar af tveir alvarlegum. Ökumaður bifreiðarinnar missti stjórn á henni með þeim afleiðingum að hún fór út af veginum. Valt bifreiðin nokkrar veltur og endaði á hliðinni. Fólkið var flutt með þyrlum og sjúkrabifreiðum af slysstað.

Slysið er til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Vesturlandi. Rannsóknarnefnd umferðaslysa og tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu komu einnig á vettvang.

mbl.is