Tannbrotinn og samansaumaður vegna skemmdarverks á reiðhjóli

Sauma þurfti fimm spor í hökuna á Kristofer eftir að …
Sauma þurfti fimm spor í hökuna á Kristofer eftir að framdekkið datt fyrirvaralaust undan reiðhjóli hans. Ljósmyndir/Aðsendar

Kristofer Óskar Dorotuson, tólf ára piltur í Þorlákshöfn, hlaut djúpan skurð og tannbrot á þriðjudag, er framdekkið datt fyrirvaralaust undan reiðhjóli hans er hann var á leið fram af gangstétt. Dekkið hafði verið losað. Ekki liggur fyrir hver var þar að verki.

Dorota Adamsdóttir móðir Kristofers segir í samtali við mbl.is að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem átt sé við dekk á hjóli sonar hennar og hefur heyrt af fleiri atvikum sama eðlis í bæjarfélaginu.

Kristofer Óskar á sjúkrahúsi eftir atvikið.
Kristofer Óskar á sjúkrahúsi eftir atvikið. Ljósmynd/Aðsend

Hún segir að sonur sinn hafi það ágætt í dag, en bætir við að hann sé smeykur við að fara aftur á reiðhjólið sitt.

Og lái honum hver sem vill. Stór skurður kom á höku Kristofers við fallið og þurfti að sauma hana saman með fimm sporum. Líklega verður hann með ör á hökunni í kjölfarið. Þá brotnaði framtönn hans, auk þess sem það rifnaði upp úr gómi fyrir ofan framtennurnar.

Lögreglan á Suðurlandi er með málið til rannsóknar. Reglulega berast fréttir af því að börn og unglingar verði fyrir slysum í kjölfar þess að einhverjir óprúttnir aðilar losi um framdekkin á reiðhjólum þeirra eða fikti við reiðhjólin með öðrum hætti.

Lögregluþjónn á Selfossi sem mbl.is ræddi við sagðist ekki viss hvort slík stórhættuleg skemmdarverk væru algengari nú en áður, en vissulega bærust ósjaldan fregnir af slíkum atvikum og það væri alltaf miður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert