Taska full af þýfi fannst í Leifsstöð

Taskan fannst á Keflavíkurflugvelli í vikunni.
Taskan fannst á Keflavíkurflugvelli í vikunni. mbl.is/Eggert

Lögreglan á Suðurnesjum vinnur nú að lausn máls sem varðar ferðatösku, fulla af þýfi, sem fannst yfirgefin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í vikunni. Eigandi töskunnar er farinn úr landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Flugstöðvardeild lögreglu fékk tilkynningu um töskuna í vikunni þess efnis að taska hefði verið skilin eftir í Leifsstöð og eigandinn líklega farinn úr landi. Er lögregla opnaði töskuna í því skyni að bera kennsl á eigandann, vaknaði grunur um að flest það sem hún hafði að geyma væri þýfi.

Við nánari eftirgrennslan kom í ljós hver eigandi töskunnar er, en sá einstaklingur er farinn af landi brott.

Í tilkynningu lögreglu kemur ekki fram hverskonar þýfi er í töskunni eða af hverju talið er að hún hafi verið skilin eftir. Lögregla vinnur sem áður segir að því að leysa málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert