Þumallinn orðinn beinhvítur

Kuldinn á hafísnum með vindkælingunni er mínus 49 gráður og …
Kuldinn á hafísnum með vindkælingunni er mínus 49 gráður og bítur allt sem hann nær tökum á - nema hundana, þeim er aldrei kalt. Ragnar Axelsson

Kafaldsbylur æðir eftir hafísnum þar sem risavaxnir ísjakar glotta í gegnum hríðina. Það er eins og þeir séu að fylgjast með okkur þar sem við mjökumst áfram með storminn í fangið. Það heyrist hundgá í fjarska frá öðrum veiðimönnum. Við sjáum engan, skyggnið er nánast ekkert þegar hríðarkófið skellur á okkur nánast fyrirvaralaust, svo dúrar á milli. Hvolfi jökunum í storminum springur hafísinn í fleka sem sporðreisast allt í kringum jakana og kremja allt sem fyrir verður, langt út frá jökunum. Við bægjum þeirri hugsun frá okkur þegar þeir skyndilega koma í ljós í gegnum hríðina; vitum að það eru ekki miklir möguleikar á því að þeim hvolfi um leið og við förum fram hjá þeim.

Hundarnir draga sleðann eftir hrufóttum ísnum, það er alltaf hægt að treysta á þá, án sleðahundanna væru inúítar á Grænlandi ekki til, sagði gömul kona í þorpinu. Gamla veiðimannasamfélagið er á undanhaldi og veiðimönnum fækkar um leið og hafísinn þynnist og hopar. Hundunum fækkar líka með tilkomu vélsleða og annarra farartækja; voru um þrjátíu þúsund fyrir tíu árum en eru nú um tólf þúsund. Ungir Grænlendingar sækjast ekki mikið eftir því að verða veiðimenn, þó alltaf séu nokkrir sem vilja lifa þannig lífi. En það er erfitt líf.

Kuldinn á hafísnum með vindkælingunni er mínus 49°C og bítur allt sem hann nær tökum á – nema hundana, þeim er aldrei kalt. Það þarf að gæta sín, andlitið kelur hratt sé það of lengi bert. Líta verður undan vindinum og hylja andlitið, það er erfitt að ná andanum í sterkustu hviðunum. Við þessar aðstæður er ekki gott að vera með mikla innilokunarkennd og passa verður sig á því að fyllast ekki skelfingu við það að reyna að ná andanum í gegnum þykka lambhúshettuna. Rífi maður lambhúshettuna af sér er voðinn vís.

Ísbjörn við Scoresbysund á Grænlandi.
Ísbjörn við Scoresbysund á Grænlandi. Rax / Ragnar Axelsson


Fingur og tær eru kaldar

Fingur og tær eru kaldar og ég átta mig á því að þumalfingur hægri handar er orðinn beinhvítur; hefur frosið á tíu mínútum og er alveg tilfinningalaus. Þumalfingurinn er hættur að virka á fókustakkann á myndavélinni, ekkert gerist þegar ýtt er á takkann. Mads Ole Kristiansen, veiðimaður frá Qaanaaq, segir að við verðum að hætta við; það sé óðs manns æði að halda áfram út á hafísröndina og tjalda í þessu veðri. Það muni ekki batna.
Við erum á kaldasta tíma ársins í febrúar, þegar frostið og vindkælingin gera allt erfiðara þó við séum í heimskautafötum. Við verðum að bíða betra færis til þess að fara á rostungsveiðar, það er allt að frjósa hjá okkur, myndavélarnar að stoppa og rafhlöðurnar að tæmast.

Greinina í heild má lesa í norðurslóðablaði Morgunblaðsins, Björgum heiminum. 

Snjókarl barnanna á norðurslóðum er að bráðna.
Snjókarl barnanna á norðurslóðum er að bráðna. Ragnar Axelsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert