„Við kærum okkur ekkert um þetta“

Bíllinn umdeildi á skólalóðinni við Borgarholtsskóla.
Bíllinn umdeildi á skólalóðinni við Borgarholtsskóla. Ljósmynd/Ársæll Guðmundsson

„Ég hef verið að gagnrýna það að þessi áfengissölufyrirtæki séu að læða inn svona risaauglýsingum inn á skólalóðir,“ segir Ársæll Guðmundsson skólameistari Borgarholtsskóla. Hann segir að Ölgerðin komi með risa áfengisauglýsingar í Borgarholtsskóla og hunsi kvartanir.

Ársæll lýsir því þannig að þegar Borgarholtsskóli fái vörur frá Ölgerðinni nýti þeir tækifærið og komi með þær í „bjórbílum“. Þeim sé síðan lagt fyrir framan skólann á skólalóðinni og ekið um hana.

Lauma risaauglýsingum inn á skólalóðir

„Ég hef verið að gagnrýna það að þessi áfengissölufyrirtæki séu að læða inn svona risaauglýsingum inn á skólalóðir,“ segir Ársæll.

Hann tók myndir af bílum Ölgerðarinnar í vor og bað fyrirtækið um að hætta að senda bíla merkta áfengi inn á skólalóðina. „Fyrst tóku þeir fálega í það og sögðust ekki geta breytt sínu skipulagi en þá sagðist ég ætla að skipta við annað fyrirtæki,“ segir Ársæll en við þær hótanir breyttist tónn Ölgerðarinnar:

„Þá lofaði framkvæmdastjórinn bót og betrun. Þetta lagaðist í vor en í haust hefur þessi stór bíll verið að koma,“ segir Ársæll en hann kom síðast á miðvikudaginn. 

Annar bjórbíll við Borgarholtsskóla í vor.
Annar bjórbíll við Borgarholtsskóla í vor. Ljósmynd/Ársæll Guðmundsson

Svona auglýsingar ekki í boði

„Þá er ég eiginlega búinn að fá nóg. Mér finnst eins og það sé verið að gera lítið úr okkur hérna. Við erum með allt niður í 15 ára nemendur, það er auðvitað flott að koma með svona auglýsingu og keyra fyrir framan allan skólann en það er bara ekki í boði hjá okkur,“ segir skólastjórinn.

„Við kærum okkur ekkert um þetta.“

Ársæll segir að það sé skýrt að áfengislöggjöf banni að áfengi sé auglýst og spyr af hverju það megi þá stilla upp svona bíl sem risa auglýsingu fyrir framan framhaldsskóla. 

„Ég sendi framkvæmdastjóra Ölgerðarinnar póst í vikunni þar sem ég bað um skýr svör hvort þeir gætu hætt þessu. Ef ekki þá munum við hætta öllum viðskiptum við Ölgerðina,“ segir Ársæll sem bíður eftir svari.

mbl.is