Deilihagkerfið „fínt nafn yfir skattsvik“

Þorsteinn Sæmundsson er ekki hrifinn af því að farveitur á …
Þorsteinn Sæmundsson er ekki hrifinn af því að farveitur á borð við Uber komi inn á markaðinn hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, segist telja að deilihagkerfið sé „í grundvallaratriðum fínt nafn yfir skattsvik“. Þetta sagði þingmaðurinn í Silfrinu á RÚV í morgun, þar sem þingmenn fjögurra stjórnmálaflokka ræddu hin ýmsu mál, meðal annars fyrirhugað frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngumálaráðherra, sem myndi opna á það að farveitur á borð við Uber starfi á Íslandi.

Þorsteinn er ekki hrifinn af slíkum veitum og sagðist vilja vera viss um það, þegar hann pantaði sér leigubíl, að sá sem að æki honum væri með allar tryggingar og réttindi í lagi og ekki á sakaskrá. „Mér er yfirleitt illa við fúsk,“ sagði Þorsteinn.

Hann ræddi málið í víðara samhengi og tengdi farveitur á borð við Uber við gistiþjónustur á borð við AirBnB. Sagði hann að reynslan sýndi að þeir sem byðu fram þjónustu sína þar slepptu því oft að greiða skatta og fullyrti að einungis um 30% eininga í útleigu væru skráðar í dag.

„Við skulum aðeins staldra við,“ sagði Þorsteinn um farveiturnar, og vísaði til slæmrar reynslu Finna og Svía af Uber. Sagði hann Uber og álíka veitur hafa reynst betur í Danmörku.

Páll sagði farveitur hafa yfirburði yfir þjónustuna sem við þekkjum

Hinir þingmennirnir þrír sem voru gestir í þættinum í morgun, Páll Magnússon frá Sjálfstæðisflokki, Halldóra Mogensen Pírati og Guðmundur Andri Thorsson frá Samfylkingu, voru öllu jákvæðari í garð deilihagkerfisins en Þorsteinn.

Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokks.
Páll Magnússon þingmaður Sjálfstæðisflokks. mbl.is/Kristinn Magnússon

Páll sagði að farveitur sem notuðust við netið, hefðu „þvílíka yfirburði“ yfir það sem við þekktum í leigubílaakstri. „Ég hef sjálfur reynslu af því að taka þessa Uber-bíla,“ sagði þingmaðurinn og lýsti svo þægindum, því að hann væri fljótari í förum og greiddi minna.

„Þeir heltast úr lestinni þeir sem eru á vondu ótryggðu bílunum og svoleiðis, enda er hægt að setja alls konar skilyrði, eins og þjóðirnar hafa gert sem eru að leyfa þetta, um bílana, bílstjórana og hverjir það eru sem fá að fara inn í þetta kerfi. Ég held að þetta sé ekki spurning um hvort þetta kemur, heldur undir hvaða formerkjum þetta verður leyft og hvernig þetta verður innleitt,“ sagði Páll.

„Þú ert þá ekki með Hreyfils-appið sem sagt,“ skaut Þorsteinn þá inn.

Bæði þau Guðmundur Andri og Halldóra sögðu, eins og Páll, að óhjákvæmilegt væri að farveitur á borð við Uber kæmu til landsins.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert