Gagnrýndi Perry fyrir löggjöf um samkynja hjónabönd

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra. mbl.is/Hari

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra gagnrýndi Rick Perry orkumálaráðherra Bandaríkjanna á fundi þeirra með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra síðasta fimmtudag. Guðmundur segist hafa látið í ljós „algjöra andstöðu“ sína við lagasetningu um bann við samkynja hjónaböndum í Texas-ríki, sem Perry stóð fyrir er hann var ríkisstjóri í Texas.

Í facebookfærslu um fundinn segir Guðmundur Ingi að hann hafi sagt Perry að sjálfur væri hann samkynhneigður og stjórnvöld bæru ríka ábyrgð á lagasetningu sem þessari. Guðmundur segist hafa tjáð Perry að stjórnvöld gætu ekki skýlt sér á bak við atkvæðagreiðslur almennings um lagasetningu sem þessa.

Rick Perry orkumálaráðherra Bandaríkjanna (t.h.) í heimsókn sinni í jarðvarmaorkuver …
Rick Perry orkumálaráðherra Bandaríkjanna (t.h.) í heimsókn sinni í jarðvarmaorkuver HS Orku í Svartsvengi á miðvikudag. mbl.is/Eggert

„Perry hefur meðal annars líkt samkynhneigð við alkóhólisma og er mótfallinn því að hinsegin fólk geti ættleitt börn,“ segir Guðmundur Ingi í færslu sinni um fundinn, þar sem einnig kemur fram að hann og forsætisráðherra hafi komið skýrum skilaboðum á framfæri varðandi loftslagmál við Perry, sem var staddur hér á landi til þess að taka þátt í Hringborði norðurslóða, Arctic Circle-ráðstefnunni.

Guðmundur Ingi ritar að þau hafi lagt áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu hvað þau varðar. Komu ráðamennirnir því á framfæri við Perry að rétt væri að Bandaríkin yrðu aftur með í Parísarsamkomulaginu.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert