Lífræni úrgangurinn verðmæt auðlind

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að þegar búið …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að þegar búið verði að skylda flokkun lífræns úrgangs gefist færi á að nýta þá vannýttu auðlind. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Árið 2018 getum við sagt að við höfum sparað í kringum 9.000 tonn af gróðurhúsalofttegundum,“ segir Kristján Ólafsson framkvæmdastjóri Moltu en fyrirtækið sér um að molta lífrænan úrgang á Eyjafjarðarsvæðinu, í Skagafirði og Þingeyjasveit.

Samkvæmt tölfræði Umhverfisstofnunnar um úrgang á Íslandi voru 88.147 tonn af lífbrjótanlegum úrgangi urðuð árið 2017. Þetta sama ár féllu til 225.000 tonn af heimilissorpi og er lífrænn úrgangur því verulega hátt hlutfall af því sorpi sem fer til urðunar með gassöfnuninni sem því fylgir.

Tæp 40% sveitarfélaga virðast þó vera með puttann á púlsinum hvað þetta varðar, því 28 sveitarfélög hið minnsta af 72 láta nú þegar jarðgera lífrænan úrgang. Mbl.is sendi fyrirspurn á öll sveitarfélög landsins varðandi urðun og endurvinnslu og svöruðu 60 þeirra. 

Íbúar í Árnes- og Rangárvallarsýslu eru meðal þeirra sem flokka lífrænan úrgang til moltunar og segir  Jón G. Valgeirsson formaður stjórnar Sorpstöðvar Suðurlands vitundarvakningu hafa átt sér stað í þessum málum á síðustu einu til tveimur árum. „Ekki bara lítil, heldur svakaleg og ekki bara gagnvart íbúum heldur líka gagnvart fyrirtækjum og frístundahúsaeigendum,“ segir hann. Í gegnum Sorpstöðina er viðhöfð  svo nefnda fjögurra tunnu söfnun á öllum heimilum og stofnunum í Árnessýslu og Rangárvallarsýslu. „Menn eru kannski ekki komnir með lausnirnar, en umfjöllun og þættir á borð við Hvað höfum við gert hafa sem betur fer kveikt í mönnum,“ segir Jón.

Að sögn Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, vinna Umhverfisstofnun og umhverfisráðuneytið nú í samráði með sveitarfélögunum að nýrri stefnu um meðhöndlun úrgangs. „Þar er ein aðgerðin bann við urðun lífræns úrgangs,“ segir Guðmundur Ingi og bætir við að þegar búið verði að skilda flokkun og farið verði að flokka lífræna úrganginn frá þá skapist um leið tækifæri til að fara að nýta þá vannýttu auðlind.

Neyddumst til að minnka magn úrgangs

Að sögn Jóns hjá Sorpstöðinni hefur hluti sveitarfélaganna í Árnes- og Rangárvallarsýslu stundað slíka flokkun um nokkurra ára skeið, en fjögurra tunnu kerfið felur í sér að flokka pappír, plast, málma og lífrænar úrgang frá almenna sorpinu. Önnur sveitarfélög m.a. Árborg, Rangárvallasýsla, Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppur hófu svo að flokka lífræna úrganginn um síðustu áramót.

„Það flýtti fyrir þessu þegar það var lokað var á okkur í Álfsnesi í janúar,“ segir Jón og vísar þar til þess að þá rann út samningur sem Sorpstöðin var með við Sorpu um urðun á úrgangi af Suðurlandi. Í dag er sá úrgangur ýmist fluttur á Fíflholt í Mýrum, eða alla leið í Stekkjavík norðan við Blönduós, tæplega 300 km leið. „Þá neyddumst við til þess að fara í þetta til að minnka magn úrgangs. Nú erum við svo að skoða útflutning á sorpi og þá þurfum við að taka lífræna úrganginn út.“

Jón segir enginn mótmæli hafa heyrst við fjögurra flokka kerfið. „Það eru allir sammála um að flokkun er nauðsynleg, þó að okkar aðstæður hafi kannski orðið þess valdandi að við flýttum þróuninni enn frekar.“

Árið 2018 tók Sorpa, sem tekur á móti sorpi af sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu við 263.064 tonnum af úrgangi.  Samkvæmt Húsasorprannsókn Sorpu fyrir síðasta ár er eldhúsúrgangur tæpur helmingur þess sem ratar í gráu tunnuna og má gefa sér að töluvert hlutfall þess sem hent er í eldhúsum landsmanna flokkist sem lífrænn úrgangur. Rannsóknin, sem gerð er með því að taka sýni úr sorpbíl og pressugámi bendir til þess að almennt sé aukning í matarleifum í tunnunni. Íbúum höfuðborgarsvæðisins stendur hins vegar ekki til boða að flokka lífrænan úrgang frá sérstaklega nema þeir stundi eigin moltugerð, en nokkur fyrirtæki á svæðinu gera þó slíkt í gegnum sorphirðu Íslenska gámafélagsins og Terra, sem áður hét Gámaþjónustan.

Með tilkomu gas- og jarðgerðarstöðvarinnar sem nú rís í Álfsnesi og sem Sorpa gerir enn ráð fyrir að verði komin í gagnið næsta vor á þó að verða breyting á. Þá verður urðun á lífrænum og brennanlegum úrgangi frá heimilum á höfuðborgarsvæðinu hætt og segir í svörum frá Sorpu að almennt sé gert ráð fyrir að endurnýtingarhlutfall heimila verði um 95%. Endurnýtingarhlutfall SORPU í heildina verður þó öllu lægra, eða í kringum 70%, þar sem ekki er gert ráð fyrir að úrgangur frá rekstraraðilum fari í gas- og jarðgerðarstöðina, allavega ekki til að byrja með.  

Gas- og jarðgerðarstöð rís í Álfsnesi. Sorpa gerir ráð fyrir …
Gas- og jarðgerðarstöð rís í Álfsnesi. Sorpa gerir ráð fyrir endurnýtingarhlutfall heimila á lífrænum úrgangi verði um 95% með tilkomu stöðvarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vantar að fá fyrirtækin meira í flokkunina

Molta tekur á móti lífrænum úrgangi frá öllum sjö sveitarfélögunum við Eyjafjörð, Þingeyjasveit og frá Skagafirði. Stöðin, sem getur unnið úr 10-12.000 tonnum árlega,  tók í fyrra á móti 7.000-8.000 tonnum af lífrænum úrgangi. 

Hægur stígandi hefur verið í magninu sem þangað berst eftir að farið var að taka á móti lífrænum úrgangi frá heimilum árið 2011, en þegar jarðgerðarstöðin hóf starfsemi árið 2009 var eingöngu tekið á móti sláturúrgangi. „Innleiðingin tókst ótrúlega vel og þetta hefur ekki verið mikil fjölgun síðan,“ segir Kristján Ólafsson framkvæmdastjóri Moltu og kveður helst vanta að fá fyrirtækin meira í lið með þeim.

Jón hjá Sorpstöð Suðurlands tekur í sama streng og segir heimilin ekki vera með stærsta hluta úrgangsins. „Það eru fyrirtækin og ferðamennirnir sem eru með um 60% af öllum úrgangi, en heimilin eru ekki með nema en um 30%,“ segir Jón og kveður sveitafélög á Suðurlandi vera að vinna að því að setja flokkunarskyldu á þessa aðila.

Að sögn Kristjáns telja þeir hjá Moltu sig vera að ná á bilinu 70-80% af öllum lífrænum úrgangi sem fellur til á svæðinu í Eyjafirði, en innleiðing græna hólfsins sem lífræni úrgangurinn fer í tókst einkar vel. „Við getum þó leikandi náð meiru,“ segir hann og setur markið yfir 90%.

Af heildarmagni sorps fór í gegnum Sorpstöð Suðurlands var um  6% verið sérsafnað sem lífrænn úrgangur. Stefán Gíslason, stofnandi Environice sem hefur unnið með Sorpstöðinni, telur að vel ætti að vera hægt að ná því upp í 10%.  „Af heimilisúrgangi sem safnað er, ætti alveg þriðjungur að geta farið í lífræna úrganginn,“ segir hann.

Hjá Gámaþjónustu Vestfjarða sem sér um sorphirðu á sunnanverðum Vestfjörðum var um 3% af heildarmagni sorps sérflokkað sem lífrænt í fyrra, en þess má geta að söfnunin hófst er ekki voru nema þrír mánuðir eftir af árinu. Rekstrarstjórinn Gunnar Árnason segir umtalsverða aukningu hafa átt sér stað á þessu ári þar sem vitund fólks sé að breytast, en af sveitarfélögunum sjö sem fyrirtækið þjónustar eru Ísafjarðarbær, Þingeyri, Flateyri og Suðureyri með sérstakt hólf í tunnunum fyrir lífrænan úrgang.

Lífræna flokkunin geri fólk líka meðvitaðra um matarsóun. „Maður verður meðvitaðri um hvað er verið að henda miklum mat og fer að hugsa sinn gang,“ segir hann. Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi þar sem endurvinnsluhlutfall er á bilinu 60-65%.

Kristján Ólafsson framkvæmdastjóri Moltu segir Moltu hafa tekið við lífrænum …
Kristján Ólafsson framkvæmdastjóri Moltu segir Moltu hafa tekið við lífrænum úrgangi frá heimilum á Eyjafjarðarsvæðinu frá 2011 og gekk sú innleiðing vel. mbl.is/Þorgeir

Dæla gasi úr urðunarhólfinu

Þegar skipting lífræna úrgangsins hjá Moltu er skoðaður kemur í ljós að sláturúrgangur er um 40% af heildarúrgangi sem kemur inn til moltunar og heimilisúrgangurinn um 20%. „Svo er stoðefni eins og timbur og pappír og svona,“ útskýrir Kristján.

Frá Norðurlandi vestra er það eingöngu heimilisúrgangurinn sem kemur til moltunar, en sláturúrgangurinn frá þeim þremur sláturfélögum sem eru á því svæði fer allur til urðunar í Stekkjarvík, í landi Sölvabakka norðan við Blönduós. Þar eru urðuð árlega um 3.400 tonn af sláturúrgangi og dýrahræjum.

Enginn moltun fer fram í Stekkjarvík, sem er ein af þremur stærstu urðunarstöðum landsins og segir Magnús B. Jónsson, formaður stjórnar Norðurár bs., engin áform uppi um að hefja moltun í tengslum við urðunarstöðina. „Við erum núna að dæla upp gasi úr þeim hluta urðunarhólfsins sem er búið að topploka,“ segir hann og kveður gasið vera brennt í dag svo það valdi ekki skaða. „Við erum hins vegar að skoða nýtingarmöguleika og hvort að við getum breytt gasinu í raforku og nýtilegan hita.“

Nú þegar hafa verið boraðar sex holur til gasvinnslu á urðunarstaðnum í Stekkjarvík. Af þeim eru þrjár virkar í dag og er upp úr þeim dælt og brennt 33 m3/kls af gasi sem er 50% metangas.

Magnús segir engu að síður bara jákvætt að það dragi úr þeim lífræna úrgangi sem sé urðaður í Stekkjarvík. Stöðin, sem í dag hefur heimild til að taka á móti 21.000 tonnum árlega til urðunar, hefur sótt um að fá heimild til að urða allt að 30.000 tonn árlega og er sú beiðni til skoðunar.

Verði af áætlunum um að banna urðun lífræns úrgangs sem rætt hefur verið um segir Magnús þurfa að gera ýmsar ráðstafanir og bendir á sláturúrganginn máli sínu til stuðnings. „Um 80% af honum kemur inn í sláturtíð,“ segir hann og kveður ekki endilega vandkvæðalaust fyrir jarðgerðarstöðvar að taka á móti slíku magni á einu bretti. Aukinheldur sé ákveðinn hluti sláturúrgangs háður þeim annmörkum að eingöngu megi brenna hann og sá hluti geti ekki í farið moltu.

Lífrænn úrgangur jarðgerður hjá Moltu í Eyjafirði. Um 40% eru …
Lífrænn úrgangur jarðgerður hjá Moltu í Eyjafirði. Um 40% eru sláturúrgangur en 20% koma frá heimilunum. mbl.is/Þorgeir

Sparast tonn á móti tonni

Að sögn Stefáns Gíslasonar, stofnanda Environice sparast um eitt  tonn af koldíoxíð ígildum fyrir hvert tonn sem fer  í jarðgerð frekar en urðun. Þessar tölur geti þó tekið breytingum sé metani safnað á urðunarstað, líkt og nú eru gerðar tilraunir með í Stekkjarvík.

Að sögn Kristjáns hjá Moltu spöruðust í fyrra í kringum 9.000 tonn af gróðurhúsalofttegundum með þeim slátur- og heimilisúrgangi sem þar var moltaður.

Fyrstu sjö mánuði þessa árs má áætla að um 500 tonn af lífrænu úrgangi hafi farið til jarðgerðar í gegnum Sorpstöð Suðurlands, sem að sögn Stefáns þýðir að sú aðgerð hefur væntanlega dregið úr losun um 500 tonna af koldíoxíð ígildum sem annars hefðu farið í urðun.                                               

Terra, sem áður hét Gámaþjónustan, sér um sorphirðu hjá tæplega 30  sveitafélögum um land allt og tók í fyrra á móti  tæplega 2.500  tonnum af lífrænum úrgangi og segir í svörum fyrirtækisins að þeim sveitarfélögum fari sífellt fjölgandi sem bjóða uppá lífræna söfnun hjá heimilum. „Við finnum fyrir mikilli ánægju á meðal þeirra íbúa sem fá kost á því að safna lífrænum úrgangi,“ segir Líf Lárusdóttir markaðsstjóri Terra, en að hennar sögn eru íbúar almennt duglegri við að nýta sér flokkunarílát ef sveitarfélag þeirra býður upp á slíka þjónustu.

Árlega fara um 5.000 tonn af lífrænum úrgangi til jarðgerðar frá Íslenska gámafélaginu víðsvegar um landið og segir Birgir Kristjánsson, framkvæmdastjóri umhverfissviðs, magnið hafa aukist ár frá ári. Íslenska gámafélagið þjónustar 24 sveitarfélög með sorphirðu og segir Birgir að varlega áætlað megi gera ráð fyrir að sparnaðurinn með því að að jarðgera í stað þess að urða samsvari útblæstri frá um 250 fólksbílum á ári.

Lífræni úrgangurinn sem Terra safnar er sendur í moltun hjá tveimur jarðgerðarstöðvum — fyrrnefndri Moltu í Eyjafirði og svo Moltugerðinni, sem Terra er með í Hafnarfirði. Líf segir lífræna úrganginn í þeirri stöð, sem samanstendur af elduðum heimilisúrgangi, grænmeti og ávöxtum, vera jarðgerðan eftir ákveðinni formúlu sem geri kleift að nýta hann í framhaldi sem lífrænan áburð. „Þannig komum við þessum auðlindum aftur inn í hringrásina sem nothæfri vöru. Við söfnum líka garðaúrgangi sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu og við höfum geta nýtt gras, trjágreinar og laufblöð, sem koma úr þeirri söfnun í Moltugerðina,“ segir hún og bætir við að Moltugerð Terra í Hafnarfirði sé vottuð og heimilt að afhenda moltuna til almennings til notkunar í ræktun.

Stefán Gíslason stofnandi Environice segir sparast um eitt tonn af …
Stefán Gíslason stofnandi Environice segir sparast um eitt tonn af koldíoxíð ígildum fyrir hvert tonn sem fer í jarðgerð frekar en urðun. Þessar tölur geta þó tekið breytingum sé metani safnað á urðunarstað mbl.is/Ómar Óskarsson

Hörputurnar gera sig vel í dreifbýlinu

Að sögn Kristjáns hjá Moltu hafa sveitarfélögin í Eyjafirði gert moltuna aðgengilega fyrir íbúa svæðisins til að nota í garðvinnslu. „Landgræðslan og Skógræktin nota hana líka og svo eru bændur eitthvað að nota hana, segir hann. „Það er alltaf meira og meira sem fólk er að nýta moltuna. Fólk er að uppgötva hana.“

Í Árnes- og Rangárvallasýslu er líka eitthvað um að sveitarfélög taki hluta moltunnar til sín, en lífræni úrgangurinn fer annars að sögn Jóns hjá Sorpstöðinni í jarðgerð í gegnum Gámaþjónustuna og Íslenska gámafélagið.  „Svo má ekki gleyma því að það eru menn sem eru í moltugerð bara heima hjá sér. Menn eru líka að nýta það í sveitinni og það er bara góður kostur.“

Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi fundu menn frumlega leið til að minnka lífræna úrganginn, en þar hafa íbúum í dreifbýli staðið til boða svo nefndir Hörputurnar frá árinu 2013. Boruð er hola með staurabor, allt að 2,5 metra niður í jörðina og 45 sm breitt plaströr svo sett þar niður og lok úr krossviði sett ofan á.

Í þessa holu setja íbúar á hverjum stað svo sinn lífræna úrgang að viðbættu ensími til að flýta niðurbrotinu.

„Við viljum meina að þeir séu að gera sig bara ágætlega vel,“ segir Kristófer A. Tómasson sveitarstjóri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi um Hörputurnana sem eru skírðir í höfuðið á Hörpu Dís Harðardóttur, fyrrum sveitarstjórnarmanni í hreppnum sem á heiðurinn að hugmyndinni.

„Fólk er að nýta þá vel,“ bætir hann við og kveður langflesta íbúa hafa þegið að fá Hörputurn, enda skynji hann ekki annað en að ánægja sé með verkefnið. „Vísitölufjölskyldan er svona 1,5 – 2 ár að fylla holuna og þá borum við nýja.“

Verktaki á vegum sveitarfélagsins mætir þá á staðinn og borar nýja holu sem gamla rörið er endurnýtt í. Á þéttbýlisstöðum í hreppnum er lífrænum úrgangi hins vegar safnað saman tvisvar í mánuði og farið með hann í Skaftholt, en þar sér sjálfseignarstofnun um rekstur heimilis fyrir fatlaða einstaklinga og þar er lífræni úrgangurinn nýttur í moltugerð.

Kristófer segir þetta óneitanlega hafa haft áhrif á umfang sorphirðu í hreppnum. „Áður en við fórum í þetta þá vorum við með brúna tunnu sem var keyrð til Reykjavíkur í Sorpu með tilheyrandi kostnaði. Þó allt kosti nú sitt þá náum samt við að spara nokkuð með þessu,“ segir hann og hlær er hann samsinnir því að samviskan sé líka eitthvað hreinni fyrir vikið.

Hörputurnarnir eru 45 sm breið plaströr með krossviðarplötu ofan á.
Hörputurnarnir eru 45 sm breið plaströr með krossviðarplötu ofan á. Ljósmynd/Aðsend
Boruð er hola, allt að 2,5 metra niður í jörðina …
Boruð er hola, allt að 2,5 metra niður í jörðina og rörið sett þar niður og svo setja íbúar matarleifar og annan lífræna úrgang í Hörputurninn. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is