Andlát: Elías Hergeirsson, fyrrverandi aðalbókari

Elías Hergeirsson, fyrrverandi aðalbókari í Héðni, lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 7. október, 81 árs að aldri. Elías var knattspyrnumaður á sínum yngri árum og gegndi trúnaðarstörfum fyrir Val og Knattspyrnusamband Íslands.

Elías fæddist í Reykjavík 19. janúar 1938 og ólst upp við Kaplaskjólsveginn. Foreldrar hans voru Hergeir Elíasson togaraskipstjóri og Ragnheiður G. Þórðardóttir húsfreyja.

Elías lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands árið 1957 og hóf þá störf við Útvegsbankann. Hann hóf störf hjá Vélsmiðjunni Héðni á árinu 1962 og vann þar til ársins 2008, lengst af sem yfirbókari.

Hann hóf að sparka bolta með KR-ingum á Framnesvellinum en gekk í Val og æfði og keppti í knattspyrnu með félaginu í öllum aldursflokkum. Hann varð nokkrum sinnum Íslandsmeistari og Reykjavíkurmeistari í yngri flokkum og lék 100 keppnisleiki með meistaraflokki á árunum 1956 til 1962, varð Íslandsmeistari 1956.

Elías sat í stjórn knattspyrnudeildar Vals og var formaður í fjögur ár, sat í aðalstjórn Vals, í stjórn Knattspyrnuráðs Reykjavíkur og í stjórn Knattspyrnusambands Íslands í tólf ár, þar af gjaldkeri í níu ár.

Hann æfði og keppti á skíðum með Ármanni á unglingsárum. Elías var sæmdur heiðurskrossi ÍSÍ.

Hann starfaði með Lionsklúbbnum Baldri og Akoges í Reykjavík um langt árabil og gegndi trúnaðarstörfum fyrir bæði félögin.

Eftirlifandi eiginkona Elíasar er Valgerður Anna Jónasdóttir skrifstofumaður. Þau eignuðust fjögur börn, Hergeir, Margréti, Ragnheiði og Jónas.

Útför Elíasar fer fram frá Hallgrímskirkju næstkomandi miðvikudag klukkan 13.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert