Ekki ástæða til að endurskoða aðild að NATO

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra telur ekki ástæðu til að endurskoða aðild Íslands að NATO þrátt fyrir innrás annars NATO-ríkis, Tyrklands, á Kúrda við landamæri Sýrlands. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn Halldóru Mogensen, þingmanns Pírata.

„Getum við treyst á varnarsamstarf með þjóðum eins og Bandaríkjunum og Tyrklandi?“ sagði Halldóra sem beindi spurningunni til Guðlaugs Þórs.

Halldóra Mogensen.
Halldóra Mogensen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Er kominn tími til að endurskoða veru okkar í NATO?“ bætti Halldóra við.

Guðlaugur ítrekaði að ákvörðun Bandaríkjaforseta að draga herlið sitt frá norðurhluta Sýrlands hafi verið misráðin.

„Við mótmælum harðlega framferði Tyrkja og sömuleiðis fordæmum við brot sem verða á almennum borgurum,“ sagði Guðlaugur Þór. Ráðherra sagði stjórnvöld hafa átt samtal við nágranna sína á Norðurlöndunum um hvernig hægt væri að pressa á Tyrki til að hætta árásunum.

„En ég tel nú samt sem áður ekki að þetta kalli á það sem þingmaður spyr hér sérstaklega að,“ sagði ráðherra.

Halldóra ítrekaði fyrirspurn sín og spurði hvort Tyrkir gætu dregið Íslendinga með sér í stríð. Hún sagðist hafa miklar áhyggjur af því að vera í bandalagi þar sem utanríkisstefna tveggja aðildarríkja virðist gengin af göflunum.

„Því er fljótsvarað að Tyrkir geta ekki dregið okkur Íslendinga í stríð,“ sagði Guðlaugur Þór. Hann bætti því við að engin NATO-þjóð hefði stutt innrás Tyrkja. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert