Fær starfsnámið metið og vonandi fæðingarstyrk

Álfrún fær starfsnám sitt í Berlín metið til eininga, en …
Álfrún fær starfsnám sitt í Berlín metið til eininga, en bíður svara frá Fæðingarorlofssjóði um hvort það verði til þess að hún eigi rétt á fæðingarstyrk námsmanna. Ljósmynd/Aðsend

Myndlistaskólinn í Reykjavík hefur tekið ákvörðun um að veita ungri konu einingar fyrir sex mánaða starfsnám hennar í Berlín, til að koma í veg fyrir að hún falli á milli skips og bryggju í fæðingarorlofskerfinu. Skólastjórinn segir að almennt séu ekki veittar einingar fyrir starfsnám sem nemendur fara í eftir útskrift út skólanum, en þó sé skólanum heimilt að meta slíkt starfsnám til eininga.

Fjallað var um mál ungu konunnar, Álfrúnar Pálmadóttur, í kvöldfréttum RÚV í gær. Þar kom fram að þar sem starfsnám hennar í Berlín hefði ekki verið metið til eininga ætti hún ekki rétt á fæðingarstyrk námsmanna og þar sem starfsnámið var ólaunað á hún heldur ekki rétt á fæðingarorlofi.

Álfrún og Ívar Glói kærasti hennar eiga von á sínu …
Álfrún og Ívar Glói kærasti hennar eiga von á sínu fyrsta barni á næstunni. Ljósmynd/Aðsend

Hún vonast til þess að einingarnar fyrir starfsnámið verði til þess að Fæðingarorlofssjóður geti samþykkt umsókn hennar um fæðingarstyrk, en ekki er komið í ljós hvernig viðbrögð sjóðsins verða. Álfrún telur einnig að reynsla hennar sýni að glufur séu í fæðingarorlofskerfinu fyrir ákveðna hópa, eins og þá sem starfa sjálfstætt eða vinna verktakavinnu.

„Persónulega vona ég að þetta verði rýmkað í allskonar áttir, því ég veit að sjálfstætt starfandi eru líka að díla við alls konar rugl,“ segir Álfrún.

Álfrún lauk námi um síðustu áramót, áður en hún fór í starfsnámið í Berlín. Myndlistaskólinn hefur hvatt nemendur sína til þess að prófa að fara í starfsnám sem þetta eftir að þeir ljúka námi, en starfsnámið hefur ekki verið hluti af námsbrautum skólans og því ekki verið metið sérstaklega til eininga.

„Ég þarf engar einingar þegar ég búin að ljúka námi,“ segir Álfrún í samtali við blaðamann, en hún hafði spurst fyrir um það hjá skólanum hvort starfsnámið myndi jafngilda einhverjum einingafjölda, en ekki fengið skýr svör um það.

Vissu ekki að málið strandaði á einingaleysi

„Við vissum aldrei að það væri það sem þetta stóð á,“ segir Áslaug Thorlacius skólastjóri Myndlistaskólans, sem sá frétt RÚV í gær og greip strax til sinna ráða.

Áslaug Thorlacius, skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík
Áslaug Thorlacius, skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík Ljósmynd/Myndlistaskólinn í Reykjavík

„Auðvitað getum við bara alveg metið þetta til eininga, ég er bara búin að því og búin að senda á Vinnumálastofnun. Ég vona að þetta sé nóg. Við höfum aldrei verið að meta þetta af því að það hefur ekki verið óskað eftir því, en við getum auðvitað vel metið þetta og við megum meta þetta,“ segir skólastjórinn.

Myndlistaskólinn í Reykjavík er einkaskóli á framhaldsskólastigi og býður upp á nám í myndlist til stúdentsprófs, auk þess að bjóða upp á viðbótarnám á framhaldsskólastigi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert