Hagnaður Procar skrúfast niður vegna svindlsins

Hagnaður Procar dróst saman um rúmar 34 milljónir króna í …
Hagnaður Procar dróst saman um rúmar 34 milljónir króna í fyrra, samanborið við árið 2017. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hagnaður bílaleigunnar Procar á síðasta ári var tæp hálf milljón króna og lækkar um 34,4 milljónir króna á milli ára, samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2018. Í skýrslu stjórnar bílaleigunnar segir að komið hafi í ljós í febrúar „að einn af stjórnendum félagsins hafði átt við ökumæla á afmörkuðum fjölda bifreiða félagsins“ og að kostnaður vegna þessa hafi verið færður inn í ársreikninginn.

Ekki er hægt að lesa glögglega út úr ársreikningnum hversu mikill kostnaður bílaleigunnar er vegna bótagreiðslna til viðskiptavina sem urðu fyrir tjóni af þessari sviksamlegu háttsemi, sem stunduð var á bílaleigunni árum saman. Rekstrartekjur bílaleigunnar voru rúmar 970 milljónir króna og dragast saman um sex milljónir frá árinu 2017. 

Fyrirtækið hefur ekki skilað inn ársreikningi fyrir árið 2017, en hagnaðurinn það árið var tæpar 34,9 milljónir króna samkvæmt tölum í ársreikningnum 2018. Hagnaður fyrirtækisins hefur rokkað töluvert á milli ára, samkvæmt eldri ársreikningum. Árið 2016 var hann einungis rúmar 300 þúsund krónur en árið 2015 hagnaðist Procar um ríflega 20 milljónir.

Rannsókn Héraðssaksóknara stendur yfir

Héraðssaksóknari hefur verið með mál félagsins til rannsóknar frá því í sumar og er rannsókninni ekki lokið, samkvæmt svari frá embættinu við fyrirspurn mbl.is.

Procar er í 65% eigu Platinum ehf., en það félag er í eigu Haraldar Sveins Gunnarssonar. Gunnar Björn Gunnarsson forstjóri Procar á svo 35% hlut í fyrirtækinu. Hann er einnig í stjórn þess, ásamt þeim Birni Snædal Hólmsteinssyni og Smára Hreiðarssyni. Samkvæmt gögnum frá bílaleigunni sem mbl.is og fleiri fjölmiðlar hafa séð og fjallað um var aðgangur Smára að kerfi bílaleigunnar ítrekað notaður til þess að skrá lækkaða kílómetrastöðu bifreiða.

Héraðssaksóknari er með mál Procar til rannsóknar.
Héraðssaksóknari er með mál Procar til rannsóknar. mbl.is/Ófeigur

Bílaleigan reyndi í upphafi að halda því fram að eini starfsmaðurinn sem hefði verið ábyrgur fyrir niðurfærslu kílómetrastöðu bílanna væri hættur störfum. Það reyndist rangt og raunar var aðgangur fleiri starfsmanna notaður til þess að skrá lækkaðar kílómetrastöður.

Rekstrarleyfið í fullu gildi þrátt fyrir svindlið

Þrátt fyrir að svindl Procar hafi verið opinberað og viðurkennt af bílaleigunni sjálfri virðist það litlar afleiðingar hafa haft fyrir reksturinn. Samgöngustofa, opinbera stofnunin sem hefur það á sinni hendi að veita bílaleigum rekstrarleyfi að uppfylltum tilteknum skilyrðum, greindi frá því í sumar að hún hefði ekki lagaheimild til þess að svipta Procar starfsleyfi, þar sem bílaleigan hefði bætt úr þeim annmörkum sem Samgöngustofa gerði athugasemdir við.

Procar fékk ekki rautt ljós frá Samgöngustofu þrátt fyrir að …
Procar fékk ekki rautt ljós frá Samgöngustofu þrátt fyrir að svindlið væri opinberað. mbl.is/Hari

„Gera þarf skýr­an grein­ar­mun á ann­ars veg­ar starf­semi öku­tækjaleigu í sam­ræmi við lög um öku­tækjaleig­ur á grund­velli starfs­leyf­is og hins veg­ar end­ur­sölu öku­tækja á al­menn­um markaði. Sam­göngu­stofa hef­ur ein­göngu vald­heim­ild­ir gagn­vart hinu fyrra. Hin meintu brot áttu sér að meg­in­stefnu til stað við end­ur­söl­una og eru þau til skoðunar hjá lög­reglu,“ sagði í tilkynningu á vef Samgöngustofu í sumar.

Skreyta sig enn með merki SAF

Procar var vísað úr Samtökum ferðaþjónustunnar strax eftir að svindlið var opinberað í fréttaskýringarþættinum Kveik um miðjan febrúarmánuð.

„Nú, það er svoleiðis? Við þurfum nú eitthvað að skoða …
„Nú, það er svoleiðis? Við þurfum nú eitthvað að skoða það,“ sagði Jóhannes Þór, nokkuð undrandi, er blaðamaður tjáði honum að merki SAF væri að finna á vefsíðu Procar.

„Sam­tök ferðaþjón­ust­unn­ar standa fyr­ir fag­mennsku og gæði og líða ekki brot sem þessi,“ sagði í yfirlýsingu frá samtökunum á þeim tímapunkti.

Procar skreytir hinsvegar enn heimasíðu sína með merki Samtaka ferðaþjónustunnar. Blaðamaður hafði samband við Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóra SAF til þess að athuga hvort bílaleigan hefði fengið inngöngu í samtökin að nýju. Hann sagði að svo væri ekki og bætti við að bílaleigan hefði ekki óskað eftir því að fá inngöngu að nýju.

„Nú, það er svoleiðis? Við þurfum nú eitthvað að skoða það,“ sagði Jóhannes Þór, nokkuð undrandi, er blaðamaður tjáði honum að merki SAF væri að finna á vefsíðu Procar.

Standa í deilum við Bílabúð Benna

Fram kemur í ársreikningi Procar að bílaleigan standi í deilum við Bílabúð Benna, umboðsaðila Opel á Íslandi, vegna 37 Opel Mokka-bifreiða sem bílaleigan flutti inn frá Þýskalandi árið 2017. Galli er í bílunum sem Procar telur að Bílabúð Benna eigi að laga án endurgjalds.

Það hefur Bílabúð Benna neitað að gera og segir í ársreikningnum að útlit sé fyrir að Procar muni þurfa að sækja rétt sinn vegna þessa mál fyrir dómstólum. Procar hefur þegar kært málið til lögreglu. Þá kemur fram að Bílabúð Benna hafi tjáð Procar að umboðið hyggist leita réttar vegna sex viðgerðarreikninga sem Procar hefur ekki greitt.

mbl.is