Hermannaveikin enn óupprætt

Dvalarheimilið Droplaugarstaðir í Reykjavík.
Dvalarheimilið Droplaugarstaðir í Reykjavík. mbl.is/Arnaldur Halldórsson

Ekki hefur tekist að uppræta legionella-sýkingu, eða svokallaða hermannaveiki, sem fannst á Droplaugarstöðum og til stendur að bregðast við með umfangsmeiri aðgerðum en áður til að ráða bug á vandanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. 

Ljóst þykir að þessi bakteríusýking sem uppgötvaðist um miðjan ágúst á hugsanlega uppruna sinn einhvers staðar utan lagna í vatnskerfi hjúkrunarheimilisins. Því þarf að  grípa til flóknari aðgerða sem Verkfræðistofan Mannvit mun sjá um. Þá er fyrirsjáanlegt að verkið mun taka lengri tíma en áður var áætlað.

Í tilkynningunni segir að þar til bakterían hafi verið upprætt með öllu verði ráðstafanir gerðar til þess að vernda íbúa hjúkrunarheimilisins, sem margir séu veikir fyrir.

Einn maður fékk sýkingu um miðjan ágúst og náði fullum bata. Hermannaveiki smitast ekki á milli manna og aðrir á heimilinu hafa ekki sýkst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert