„Aðstæður sem kröfðust neyðarréttar“

Sveinn Guðmundsson, stjórnarformaður SÍBS.
Sveinn Guðmundsson, stjórnarformaður SÍBS. Mbl.is/Hari

Sveinn Guðmundsson, stjórnarformaður SÍBS, segir þá stöðu sem upp er komin á Reykjalundi vera leiðinlega, en að horfa þurfi til framtíðar. Aðstæður hafi verið þannig að ekki kæmi annað til greina en að grípa til aðgerða. 

„Það er margt um þetta að segja en ég kýs að vera faglegur með hagsmuni staðarins í huga og tjá mig ekki um þetta,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is. 

„Við vorum ekki að grípa inn í eitt né neitt, það komu bara upp aðstæður sem kröfðust neyðarréttar af okkar hálfu. Við vissum ekki að það væri eitthvað í gangi þarna innanhús fyrr en okkur var tjáð hvað væri í gangi og þess vegna urðum við að bregðast við. Ég get alveg réttlætt þær aðgerðir alla leið, en ég ætla ekki að gera það því það er trúnaður og við ræðum ekki um málefni einstaka starfsmanna,“ segir Sveinn. 

Formaður læknaráðs Reykjalundar, Magdalena Ásgeirsdóttir, fór hörðum orðum um stjórn SÍBS í samtali við mbl.is og fleiri fjölmiðla í dag. Sagði hún jarðarfarastemningu vera á meðal starfsfólks Reykjalundar og að hún íhugi nú hvort hún geti starfað undir nýjum stjórnendum á vinnustaðnum. 

„Ég er bara miður mín að hún skuli taka þennan pól í hæðina og tala eins og hún gerir. Svo get ég bara ekki sagt meira,“ segir Sveinn um ummæli Magdalenu.

Segir breytingarnar ekki hafa áhrif á sjúklinga

Þá sagði Magdalena í samtali við RÚV að sjúklingum hafi verið stefnt í voða þegar framkvæmdastjóra lækninga var sagt upp fyrirvaralaust. 

Sveinn segir breytingar í framkvæmdarstjórn Reykjalundar ekki koma til með að hafa nein áhrif á sjúklinga. 

„Engin áhrif, engin. Það get ég alveg sagt alla leið og ég skil ekki af hverju hún segir þetta og talar svona.

„Málefnið er miklu stærra en mennirnir, við erum að reyna að vernda það og passa upp á. Það eru komnir nýir og mjög færir einstaklingar þarna inn. Þetta eru flottir einstaklingar og þeir munu taka á öllum málefnum innanhús og vinna áfram inn í framtíðina með hagsmuni sjúklinga og staðarins að leiðarljósi. Sem við eigum öll að gera. Við öndum ekki ofan í hálsmálið á fagfólki á staðnum. Við bara gerum það ekki.“

Nýir stjórnendur hæft og fagráðið fólk 

Tilkynnt var í dag að Ólafur Þór Ævarsson hafi verið ráðinn framkvæmdarstjóri lækninga og Herdís Gunnarsdóttir skipuð forstjóri Reykjalundar þar til nýr einstaklingur hefur verið ráðinn í stöðuna, en Herdís var ráðin framkvæmdarstjóri endurhæfingarsviðs í sumar. 

Sveinn segir nýja stjórnendur vera hæft og fagráðið fólk og segir það af og frá að þeir séu handbendi stjórnar SÍBS, en Magdalena sagði í samtali við RÚV að hún gæti ekki annað en litið á Herdísi og Ólaf sem handbendi stjórnarinnar.

„Við höfum ekkert með þetta að gera. Þetta fór bara í ráðningarferli og Ólafur kemur þarna inn, eini einstaklingurinn sem sótti um starfið og okkur þótti rétt að hafa forstjóra sem væri nýkominn inn og besta manneskjan í það var Herdís. Það er erfitt fyrir hana að stíga inn í þetta starf þar sem hún ætlaði að gera eitthvað allt annað þegar hún var ráðin og við erum mjög þakklát henni að hún skuli vilja taka þetta að sér. 

„Stjórn SÍBS hefur aldrei skipt sér af rekstrinum þarna uppfrá. Það sem gerðist þarna var mjög sérstakt sem við getum ekki og megum ekki tala um án þess að rjúfa trúnað. Það er erfitt að vera í þessari stöðu að geta ekki sagt það sem manni langar að segja. En við bara tölum ekki um málefni einstaklinga. 

„Það er ekki þannig að við ætlum að fara um með bál og brand þarna, það kemur ekki til greina. Það bara kom upp ákveðin staða og svona atvikuðust málin,“ segir Sveinn. 

Segir stöðuna snúna 

Í síðustu viku lýstu rúmlega 100 starfsmenn Reykjalundar yfir vantrausti á hendur stjórnar SÍBS. Sveinn segir þá stöðu vera snúna. 

„Ég veit ekki hvað við eigum að gera með það, hvernig stjórnsýslulega við ættum að fara með það. Við þiggjum okkar umboð frá sambandsþinginu. Þarna er starfsfólk á einum stað að lýsa yfir vantrausti á hendur stjórnar sem hugsar um marga aðra hluti eins og til dæmis Múlalund og starfsemi sjúklingafélaganna. Það eru þau málefni sem við vinnum með frá degi til dags og svo kemur þarna upp mál og það er engin sem getur tekið neina afstöðu eins og staðan var orðin nema stjórn SÍBS.“

Sveinn segir að einn starfsmaður hafi sagt upp störfum í kjölfar breytinganna. Hann á ekki von á því að uppsagnirnar verði fleiri. 

„Við ráðum því ekki hvar fólk vill vinna, en ég tel þetta vera góðan vinnustað og þetta er sjokkerandi fyrir alla, líka okkur sem erum þarna í sjálfboðastarfi. Ég hvet alla sem vinna þarna að setjast niður og hugsa til framtíðar með heild staðarins í huga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina