„Hærri bílar komnir í veruleg vandræði“

Gríðarlegt hvassvirði er nú undir Eyjafjöllum.
Gríðarlegt hvassvirði er nú undir Eyjafjöllum. mbl.is/RAX

Mikið hvassvirði er á Suður- og Suðausturlandi og verður áfram í kvöld og nótt. Veðurfræðingur varar fólk við því að vera á ferðinni.

„Vegagerðin er sýnist mér búin að merkja þetta svæði „óveður,“ segir Óli Þór Árnason veðurfræðingur í samtali við mbl.is. 

„Ég myndi kannski ekki segja að það væri endilega ófært, en vindkviðurnar eru sumstaðar komnar upp í 46 metra á sekúndu. Það fer að vera erfitt að halda sér á veginum.„

„Þegar meðalvindurinn er ekki nema rétt um fimmtán og þú ert í rauninni með hviðustuðull sem er í orðin þrefalt hærri en meðalvindurinn, þá er þetta orðið djöfulli leiðinlegt eins og einhver myndi orða það,“ segir Óli. 

Gul viðvörun er vegna veðurs á Suður- og Suðausturlandi. Hvassast er undir Eyjafjöllum og við Reynisfjall. 

„Þetta er eiginlega orðið þannig að allir hærri bílar eru komnir í veruleg vandræði og ég tala nú ekki um það ef það hangir eitthvað aftan í þeim. Þetta er ekki veðrið fyrir þannig ökutæki,“ segir Óli. 

Áfram hvasst fram á fimmtudagskvöld

Óli segir mikilvægt að hafa almennar varúðarreglur í huga vegna veðursins og koma útigrillum og slíkum munum inn. 

„Íbúar á svæðinu eru nú reyndar búnir að fá einhver þrjú eða fjögur svona veður í haust þannig ef þeir eru ekki búnir að taka þetta saman núna þá hlýtur það að vera fokið. Annars eru bara almennar varúðarreglur sem þarf að huga að.“

Óli segist ekki geta mælt með því að fólk sé mikið á ferðinni. 

„Það er talsverð rigning svo að vegirnir eru blautir, ekkert sérstakt skyggni og mjög hvasst, gengur á með mjög hvössum hviðum. Ef það dugir ekki til að segja „jæja nú ætla ég bara að sitja heima og slaka á í kvöld“ þá verða menn allavega að fara varlega.“

Óli segir að víðast hvar taki að lægja í nótt, en að í Öræfasveit verði áfram afar hvasst. 

„Það dregur svolítið úr vindinum seint í kvöld og í nótt. En til dæmis í Öræfasveit verður áfram mjög hvasst og byljótt. Það verður kannski ekki alveg jafn hvasst og núna en þar verður áfram leiðinlega hvasst á morgun. 

„Á móti kemur að vegirnir verða farnir að þorna og betra skyggni svo það verður kannski betra fyrir fólksbíla að vera á ferð, en háir bílar, tómir flutningabílar eða aftanívagnar eru ekki kostur fyrir morgundaginn. Í raun verður strekkingsvindur þarna áfram svo það er kannski ekki veður fyrir aftanívagna fyrr en á föstudag eða fimmtudagskvöld. 

„Hún fer hægt og rólega þessi lægð og er sæmilega mikil um sig. Það tekur tíma að ganga niður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert