Einn starfsmaður Reykjalundar hefur sagt upp störfum

Einn starfsmaður á Reykjalundi sagði upp störfum sínum í síðustu …
Einn starfsmaður á Reykjalundi sagði upp störfum sínum í síðustu viku.

Einn starfsmaður á Reykjalundi sagði upp störfum sínum í síðustu viku. Þetta staðfestir Guðbjörg Gunnarsdóttir, mannauðsstjóri Reykjalundar, við mbl.is. Óróa hefur gætt á meðal starfsfólks eftir að framkvæmdastjóra lækninga var sagt upp störfum í síðustu viku og starfslokasamningur var gerður við fyrrverandi forstjóra Reykjalundar fyrir mánaðamót. 

Á starfsmannafundi sem haldinn verður í hádeginu í dag verður tilkynnt um ráðningu nýs fram­kvæmda­stjóra lækn­inga og jafnframt sagt frá ráðningu for­stjóra sem stýra mun starf­semi Reykjalund­ar þar til nýr for­stjóri hef­ur verið ráðinn eftir aug­lýsingu. 

1. október tók við ný framkvæmdastjórn samkvæmt nýju skipuriti Reykjalundar sem var samþykkt á stjórnarfundi SÍBS. Á sama tíma hóf Herdís Gunnarsdóttir störf sem framkvæmdastjóri endurhæfingarsviðs Reykjalundar sem á sæti í framkvæmdastjórninni. Þetta er nýtt starf við Reykjalund sem var auglýst í sumar. 

Fjórir sitja í framkvæmdastjórn Reykjalundar og varð breyting einnig á hverjir skipa stjórnina 1. október. Herdís á sæti þar auk Guðbjargar Gunnarsdóttur, mannauðsstjóra Reykjalundar, Láru M. Sigurðardóttur, framkvæmdastjóra hjúkrunar og Helga Kristjónssonar framkvæmdastjóra rekstrarsviðs. Þau tvö síðastnefndu sitja áfram í framkvæmdastjórn. Áður áttu sæti í þeirri stjórn Birgir Gunnarsson, fyrrverandi forstjóri Reykjalundar, og Magnús Ólason, framkvæmdastjóri lækninga, sem var sagt upp störfum í síðustu viku. 

Ólga meðal starfsfólks er nýtilkomin og má rekja til uppsagnar Magnúsar og starfsloka við Birgi, að sögn Helga Kristjónssonar framkvæmdastjóra rekstrarsviðs við mbl.is. Hann bendir á að Reykjalundur hafi verið í öðru sæti sem fyrirmyndarstofnun fyrir árið 2019. Heilt yfir gengi starfsemin vel og góður starfsandi væri, segir hann og tekur fram að uppsögn Magnúsar væri ekki í samræmi við starfsemi Reykjalundar.    

mbl.is