Enginn einn geti drottnað yfir málefnum veiðifélaga

Í greinargerð frumvarpsins segir að lítt hafi verið hugað að …
Í greinargerð frumvarpsins segir að lítt hafi verið hugað að stöðu minnihluta félaga í veiðifélögum í endurskoðun laganna vorið 2006, en við hana féllu úr gildi fyrirmæli eldri laga að byggi maður á fleiri en einni jörð skyldi hann engu að síður aðeins hafa eitt atkvæði á félagsfundi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, leggur til að staða smærri aðila í veiðifélögum verði efld þannig að atkvæðavægi aðila og tengdra aðila verði takmarkað við 30%, að því er fram kemur í frumvarpi um breytingar á lögum um lax- og silungaveiði sem ráðherrann hefur lagt fyrir Alþingi.

Jafnframt verður farið fram á að 2/3 atkvæða allra félagsmanna þurfi til þess að samþykktir séu löglegar eða þeim breytt. „Breytingin hefur það í för með sér að enginn einn aðili geti drottnað yfir málefnum veiðifélaga,“ segir í fréttatilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu.

Lítt verið hugað að stöðu minnihluta félaga

Í greinargerð frumvarpsins segir að lítt hafi verið hugað að stöðu minnihluta félaga í veiðifélögum í endurskoðun laganna vorið 2006, en við hana féllu úr gildi fyrirmæli eldri laga að byggi maður á fleiri en einni jörð skyldi hann engu að síður aðeins hafa eitt atkvæði á félagsfundi.

„Þá hefur gerst frá þeim tíma að meira kveður að því en áður að keyptar séu upp laxveiðijarðir í einni og sömu á í fjárfestingarskyni, sem getur leitt til þess að minni hluti í veiðifélagi verði til lengri tíma áhrifalítill og einn aðili drottni yfir málefnum félagsins. Hinar sérstöku reglur laga um lax- og silungsveiði um meðferð veiðiréttar og ráðstöfun veiði gera það að verkum að rétt þykir að bregðast við þessu.“

Breyting á skipan arðskrárnefndar til að auka þekkingu

Tillögur ráðherrans gera einnig ráð fyrir að breyting verði gerð á skipan arðskrárnefndar og mun Hafrannsóknastofnun tilnefna fulltrúa í stað Hæstaréttar og að hann verður formaður nefndarinnar, verði frumvarpið samþykkt.

„Þetta er gert til að auka fiskfræðilega þekkingu á nefndinni,“ segir í tilkynningu ráðuneytisins og er vísað til þess að „veiðifélögum er skylt að gera arðskrá, sem sýnir hluta af veiði eða arð af veiði sem koma skal í hlut fasteigna, lögaðila eða einstaklinga sem eiga veiðirétt í vatni á félagssvæði.“

Jafnframt er lagt til að milliganga hins opinbera vegna greiðslu kostnaðar af arðskrármati verði fellt niður, þannig munu veiðifélög greiða arðskrárnefnd beint fyrir vinnu sína. Áður greiddi Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fyrir störf nefndarinnar og endurkröfðu svo veiðifélög um greiðsluna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert