Mæðurnar lengur í orlofi og fá minna

Nýfætt barn. Nokkur kynjamunur er á töku fæðingarorlofs samkvæmt svari …
Nýfætt barn. Nokkur kynjamunur er á töku fæðingarorlofs samkvæmt svari félags- og barnamálaráðherra. Ljósmynd/Pexels

Meira en tvöfalt fleiri feður fengu hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi 2015 - maí 2019 en mæður. Þær taka aftur á móti meira en tvöfalt lengra fæðingarorlof en feðurnir og 15 sinnum fleiri mæður en feður tóku sex mánaða fæðingarorlof. Á fjórða þúsund mæðra og feðra fengu engar greiðslur á þessu tímabili.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í svari Ásmundar Einars Daðasonar, félags- og barnamálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Jónssonar þingmanns VG um fæðingar- og foreldraorlof.

Spurt var um tímabilið frá byrjun árs 2015 og fram til loka maí í ár. Í svarinu kemur m.a. fram að fólk með miðlungsháar tekjur er líklegast til að fullnýta fæðingarorlof sitt, þ.e. nota alla þá daga sem það á rétt á. Fólk með miðlungstekjur er einnig líklegra til að dreifa fæðingarorlofinu, þ.e. að dreifa töku fæðingarorlofs samhliða því að vera í hlutastarfi.

Hámarksgreiðsla í fæðingarorlofi er 600.000 krónur á mánuði. Í svari ráðherra má sjá að 676 mæður fengu hámarksgreiðslur á þessu tiltekna tímabili en 1.344 feður. Foreldrum sem fá hámarksgreiðslur fækkaði á tímabilinu og frá áramótum og fram í lok maí í ár fengu 428 foreldrar þær; 136 mæður og 292 feður.

15.302 mæður og 998 feður

Miklu fleiri mæður en feður taka svokallaðan sameiginlegan rétt til fæðingarorlofs, sem er þeir þrír mánuðir sem foreldrar ráða hvernig þeir skipta á milli sín. Það foreldri sem tekur allan þennan rétt tekur því sex mánaða fæðingarorlof, en hitt tekur þá í mesta lagi þrjá mánuði. Á tímabilinu tóku 15.302 mæður þennan rétt í heild, en 998 feður gerðu slíkt hið sama. 604 foreldrar skiptu þessum þremur mánuðum á milli sín á ýmsa vegu.

Á tímabilinu frá 1. janúar 2015 til 31. maí í ár fengu 3.648 foreldrar hvorki greitt úr Fæðingarorlofssjóði né fæðingarstyrk sem er greiddur þeim sem eru í námi eða utan vinnhumarkaðar. Þetta voru  3.139 karlar og 509 konur. Í svari félags- og barnamálaráðherra segir að ástæður þessa liggi ekki fyrir, en samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun sé algengasta ástæðan sú að fólk sæki ekki um greiðslur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert