Níu tónleikastaðir hljóta styrk

Iðnó fékk hæsta styrkinn eða 2.250.000 kr. til kaupa á ...
Iðnó fékk hæsta styrkinn eða 2.250.000 kr. til kaupa á nýju hljóðkerfi. mbl.is/Sigurður Bogi

Menningar-, íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur samþykkti á ráðsfundi í gær tillögu þess efnis að níu tónleikastaðir og menningarhús er sinna lifandi tónlistarflutningi hljóti styrk úr nýjum úrbótasjóði tónleikastaða í Reykjavík.

Iðnó fékk hæsta styrkinn eða 2.250.000 kr. til kaupa á nýju hljóðkerfi og Gaukurinn og Hannesarholt fengu hvor tveggja styrk að upphæð 1.700.000 kr. til að kaupa og setja upp hjólastólalyftu. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Þar segir að úrbótasjóðurinn sé runninn undan rifjum Tónlistarborgarinnar í Reykjavík, en hlutverk hans er að styðja við tilvist minni og miðlungsstórra tónleikastaða í Reykjavík með því að veita styrki til úrbóta á tónleikastöðunum hvað varðar aðstöðu, aðbúnað og aðgengi. 

Kex Hostel og Bryggjan brugghús fengu 1 milljón hvor til kaupa á nýju hljóðkerfi, Stúdentakjallarinn fékk einnig styrk til að bæta hljóðkerfið sitt að upphæð kr. 250.000 og Mengi fékk 380.000 kr. til kaupa á veggtjöldum.

Tveir nýir tónleikastaðir í borginni fengu jafnframt styrki úr sjóðnum, Bakkaskemman í Sjávarklasanum fékk styrk til að hljóðdempa rýmið að upphæð kr. 470.000 og Stelpur rokka! fengu 750.000 kr. styrk til að gera nýtt tónleikarými í Breiðholtinu klárt til tónleikahalds.

Umsóknarfrestur í sjóðinn var til 30. ágúst en alls bárust 20 umsóknir frá 16 tónleikastöðum.

mbl.is