Stormur á Suðurlandi eftir hádegi

Vindhviður geta farið yfir 40 metra á sekúndu undir Eyjafjöllum …
Vindhviður geta farið yfir 40 metra á sekúndu undir Eyjafjöllum og í Öræfum þegar líða fer á daginn. mbl.is/RAX

Von er á austanstormi með suðurströndinni, einkum undir Eyjafjöllum og í Öræfum, þar sem víðáttumikil lægð er stödd langt suður í hafi. Vindurinn mun ná sér á strik í kringum hádegi og gilda gular viðvaranir frá hádegi og til miðnættis. Vindhviður geta farið yfir 40 metra á sekúndu. 

Annars staðar á landinu er útlit fyrir stífa austanátt þó að náist líklega ekki í stormstyrk nema á hálendinu, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Með þessum stífa vindi er rigning um landið sunnan- og austanvert og jafnvel talsverð um tíma suðaustanlands í kvöld.

Á morgun dregur úr vindi víðast hvar þó að líklega verði stormur í Öræfum fram eftir degi og einhver væta um landið austanvert.

Veðurhorfur næstu daga: 

Á miðvikudag:
Austan 8-13 m/s, en 13-20 SA-lands. Þurrt að kalla á landinu, en rigning með köflum A-ast. Hiti 4 til 11 stig, mildast SV-til. 

Á fimmtudag:
Norðaustan 8-15 m/s. Rigning SA- og A-lands, skýjað en úrkomulítið norðan til, léttskýjað um landið V-vert. Hiti 2 til 8 stig, mildast syðst. 

Á föstudag:
Hægt minnkandi norðaustanátt. Skýjað og úrkomulítið fyrir austan, en bjart með köflum V-lands. Hiti 1 til 6 stig yfir daginn, en víða líkur á næturfrosti. 

Á laugardag:
Fremur hæg breytileg átt og skýjað með A-ströndinni, annars bjart á köflum. Kólnar heldur.

Á sunnudag:
Suðvestlæg átt og fer að rigna V-lands. Hiti 0 til 7 stig.

Á mánudag:
Útlit fyrir breytilega átt og úrkomusamt veður um allt land. Hlýnar allra syðst.

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert