Veðurfræðingur aldrei séð annað eins

Skýið var eins og gríðarstórt egg á himni.
Skýið var eins og gríðarstórt egg á himni. Ljósmynd/Sigga Maija

Fatahönnuðurinn Sigga Maija tók ljósmynd af egglaga skýi sem prýddi himininn í Reykjavík í morgun. Skýið vakti athygli enda lítur það út eins og fljúgandi furðuhlutur. Sigga tók myndina fyrir utan Bíó paradís á Hverfisgötunni klukkan níu í morgun. 

„Þetta er svona vindskafið ský en þau sjást oft í norðanátt hérna yfir Reykjavík. Þetta eru bólstrar sem lenda í háloftavindinum og hann mótar þau svolítið og skefur af þeim. Þá verða þetta oft svona eins og diskar. Þetta er kallað linsuský á Latínunni, lenticularis, sumum finnst þetta líkjast fljúgandi diskum en þetta líktist frekar eggi sem er skemmtilegt,“ segir Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. 

Ljósmynd/Sigga Maija

Ólíklega geimverur

Spurður hvort þarna gætu verið geimverur á ferð segir Þorsteinn: „Nei, það held ég ekki. Þetta er fyrirbæri sem verður til í hvassri norðanátt eða í ákveðinni norðanátt við fjöll. Þá myndast oft svona bylgjuský og háloftavindarnir ná að móta þau eða skafa af þeim og þá verða þau svona linsulaga.“

Þó linsuský séu algeng hérlendis, sérstaklega hlémegin við fjöll í hvössum eða allhvössum vindum, hefur Þorsteinn aldrei séð egglaga linsuský áður. „Einhver sagði í gamni að það ætti að kalla þetta eggjaský en það er auðvitað ekki til.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert