„Aldrei upplifað annað eins“

Sveinn Guðmundsson, stjórnarformaður SÍBS.
Sveinn Guðmundsson, stjórnarformaður SÍBS. mbl.is/​Hari

Sveinn Guðmundsson, stjórnarformaður SÍBS, segir tvo starfsmenn hafa sagt upp störfum í kjölfar uppsagnar forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga Reykjalundar. 

„Það voru tveir búnir að segja upp störfum frá fyrri tíma, það liggur alveg fyrir. Síðan sagði einn upp núna um daginn og það liggur í eðli máls að sú sem hefur hrópað hæst og er að rífa upp sár og skapa deilur á staðnum, ég geri ráð fyrir að hún sé væntanlega fjórði einstaklingurinn,“ segir Sveinn í samtali við mbl.is. 

RÚV greindi frá því í dag að fjórir læknar hafi sagt upp starfi sínu á Reykjalundi. Samkvæmt RÚV sagði einn upp á svipuðum tíma og fyrrverandi forstjóra var sagt upp störfum, annar á fimmtudaginn í síðustu viku, þriðji í gær og sjá fjórði í dag. 

Samkvæmt Sveini hafa aðeins tveir læknar sagt upp störfum í kjölfar uppsagna forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga. Þá segir Sveinn umræðuna um málið vera farna út um þúfur og segir hann sérstaklega erfitt að sitja undir harðorðum ummælum formanns læknaráðs Reykjalundar, án þess að geta svarað fyrir sig. Hann sé bundinn trúnaði sem hann muni ekki rjúfa. 

„Ég er ekki að máta mig við umræðuna eins og hún er. Þetta er svo ljótur framgangur heilara sem læknir á að vera. Að vilja ekki ræða það sem málið snýst um. 

„Við stjórnum engri atburðarás í þessu. Svo er bara birtingarmyndin þessi, ég skil þetta bara ekki. Ég er búin að starfa í félagsmálum í fjörutíu ár og hef aldrei upplifað annað eins.“

Verið að ýfa upp gömul sár

Magdalena Ásgeirsdóttir, formaður læknaráðs Reykjalundar, og Stefán Yngvason, formaður Félags íslenskra endurhæfingarlækna, verða gestir Jóhönnu Vigdísar í Kastljósi í kvöld. Magdalena hefur sem áður segir farið hörðum orðum um stjórn SÍBS í fjölmiðlum undanfarna daga og FÍE gaf í dag út ályktun vegna ástandsins á Reykjalundi þar sem stjórn SÍBS var einnig harðlega gagnrýnd. 

Sveinn segir það erfitt að geta ekki tjáð sig um málið sjálfur. Hann sé bundinn trúnaði sem hann vill virða og geti því ekki sagt frá þeim aðstæðum sem leiddu til starfsloka forstjóra og framkvæmdastjóra lækninga Reykjalundar. 

„Við erum bundin trúnaði og hún veit það. Við megum ekki tala um svona mál. Hún er líka bundin trúnaði en hún kýs að rjúfa hann. Þetta er alveg ótrúlegt. Ég var tilbúinn til að fara í Kastljósið en við teljum það bara ekki rétt að fara að ýfa upp sár í fjölmiðlum. Við virðum þann trúnað sem við erum bundin af. Okkar hlutverk núna er að græða en ekki halda áfram út í hið óendanlega. Það er svo margt annað að gerast í heiminum.“

mbl.is