„Almennt ekki gott“ þegar meirihlutavaldi er beitt

Selá í Vopnafirði.
Selá í Vopnafirði. mbl.is/Hari

„Það er bara misjafnt, sýnist mér,“ segir Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, spurður út í það hvernig veiðifélög landsins hafi brugðist við fregnum af nýframlögðu frumvarpi Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um minnihlutavernd í veiðifélögum.

„Við erum að heyra í okkar fólki og yfirfara málið. Þetta er ekki sett fram í einhverju samkomulagi við okkur eða út af okkar áhyggjum, þetta er eitthvað sem ráðherrann ýtir fram,“ segir Jón Helgi.

Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga.
Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga. Ljósmynd/Halla Bergþóra Björnsdóttir

Frumvarpi ráðherrans til laga um lax- og silungsveiði er ætlað að koma í veg fyrir að einn aðili geti, í krafti eignarhalds síns á meirihluta laxveiðijarða innan veiðifélags, „drottnað yfir málefnum veiðifélaga“, eins og það var orðað í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu í gær.

Sérstaklega er fjallað um það í greinargerð frumvarpsins að algengara hafi orðið á undanförnum árum að laxveiðijarðir séu keyptar í fjárfestingaskyni, sem leiði til þess að minni hluti innan veiðifélaga verði áhrifalítill til lengri tíma. Verði frumvarpið að lögum mun einn aðili og þeir sem eru tengdir honum einungis hafa 30% atkvæðavægi að hámarki.

Mikið hefur verið fjallað um jarðakaup breska auðmannsins Jim Ratcliffe á laxveiðisvæðum á Norðausturlandi á allra síðustu árum og virðist frumvarpið, eins og það er sett fram, miða að því að takmarka völd eins aðsópsmikils aðila á borð við Ratcliffe innan veiðifélaga.

Jón Helgi segir málið dálítið flókið, þar sem fólki sem býr við laxveiðiár er skylt að vera í veiðifélögum. Hann segir „almennt ekki gott“ þegar fólk er beitt meirihlutavaldi og það hafi verið rætt af hálfu veiðifélaga, en veit ekki hvort að þetta frumvarp sé lausnin á því.

„En almennt séð þá er náttúrlega mjög mikilvægt í svona félagsskap veiðifélaga að menn reyni að ná samkomulagi um hluti frekar heldur en að beita meirihluta. Það er ákveðin ábyrgð sem fylgir því að vera í félagsskap þar sem menn eru skyldugir til að vera,“ segir Jón Helgi.

Dreift eignarhald almennt jákvætt

Spurður hvort að hann túlki það sem svo að frumvarpið sé lagt fram til þess að stemma stigu við jarðakaupum auðmanna á laxveiðijörðum segir Jón Helgi að honum sýnist málið lagt upp þannig af hálfu ráðherra, en forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa talað á þeim nótum að breiður pólitískur vilji sé til staðar um að takmarka jarðakaup auðmanna og boðað aðgerðir í þeim efnum.

Jón Helgi segir að almennt séð séu menn þeirrar skoðunar að dreift eignarhald sé „jákvætt almennt séð, en hvort þessi leið sé best til þess að ná því fram er kannski annað álitamál.“

mbl.is