Óþarfi að sjóða vatn úr Grábrókarhrauni

Íbú­ar í Borg­ar­nesi, á Bif­röst og Varmalandi og aðrir viðskipta­vin­ir …
Íbú­ar í Borg­ar­nesi, á Bif­röst og Varmalandi og aðrir viðskipta­vin­ir vatns­veitu Veitna úr Grá­bók­ar­hrauni þurftu að sjóða neyslu­vatn sitt fyrr í þessum mánuði. Kort/mbl.is

Ekki er lengur þörf á að sjóða neysluvatn úr Grábrókarhrauni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veitum, sem hafa í samráði við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands aflétt tilmælum til viðskiptavina vatnsveitu fyrirtækisins úr Grábrókarhrauni um suðu neysluvatns.

„Sýni tekin úr vatnsbólinu sjálfu og víðar úr veitukerfinu síðustu daga hafa staðist gæðakröfur og settur hefur verið upp lýsingarbúnaður við vatnsbólið sem tryggir enn frekar öryggi vatnsins,“ segir í tilkynningu. 

Greint var frá því í byrjun mánaðarins að íbú­ar í Borg­ar­nesi, á Bif­röst og Varmalandi og aðrir viðskipta­vin­ir vatns­veitu Veitna úr Grá­bók­ar­hrauni þyrftu að sjóða neyslu­vatn sitt, en staðfest­ing barst um gerla­meng­un í vatn­inu. 4. október var tilmælunum aflétt. Engu að síður ákváðu Veitur að hefja daglega sýnatöku úr vatnsbólinu og að setja þar upp lýsingarbúnað. 

Viku síðar, fimmtudaginn 10. október, vaknaði aftur grunur um að gerlar væru í vatninu. Þá gáfu Veitur og Heilbrigðiseftirlit Vesturlands út tilmæli um suðu neysluvatns frá vatnsbólinu. Í ljósi þess hversu stutt var frá fyrri grun og að stutt væri í að lýsingarbúnaður væri orðinn virkur, var ákveðið í öryggisskyni að láta tilmælin ná til dagsins í dag, miðvikudagsins 16. október.

Áfram fylgst með gæðum vatnsins

Lýsingarbúnaðurinn er sams konar og Veitur hafa rekið við vatnsból Akurnesinga um árabil. Búnaðurinn við vatnsbólið í Grábrókarhrauni hefur nú verið í prófun og stillingum frá laugardeginum 12. október. Fylgst hefur verið með virkni hans með daglegum sýnatökum. Vegna þess að tíma tekur að fá vísbendingar úr sýnatökum, og vegna þess að vatnið er lengi á leiðinni frá vatnsbólinu í Grábrókarhrauni í krana neytenda í Borgarfirði, hafa Veitur ekki viljað aflétta tilmælum til viðskiptavina vatnsveitunnar fyrr en nú.

Vísindafólk Veitna á nú í samstarfi við rannsóknarstofur hvort tveggja til að útiloka tiltekna möguleika á upptökum mengunarinnar og að rannsaka aðra kosti frekar. Slíkar rannsóknir munu taka nokkurn tíma. Lýsingarbúnaðurinn sem settur hefur verið upp á að tryggja öryggi vatnsbílsins en engu að síður verður áfram grannt fylgst með gæðum vatnsins úr Grábrókarhrauni.

Veitur biðja viðskiptavini velvirðingar á öllum þeim óþægindum sem þetta hefur valdið og þakka þeim fyrir að sýna stöðunni skilning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert