Stjórnvöld taki af skarið

Auka þarf virknina á raforkumarkaðinum hér á landi og stjórnvöld þurfa að taka af skarið með stefnumörkun í orkumálum. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, en samtökin kynna í dag nýja skýrslu um raforkumarkaðinn og samkeppnishæfni hans á opnum fundi.

Þar er m.a. lagt til að sköpuð verði skilyrði til virkrar samkeppni á raforkumarkaði með skýrum leikreglum og virku eftirliti. Tryggja þurfi samkeppnishæft raforkuverð og skilið verði að fullu á milli eignarhalds raforkufyrirtækja í Landsneti.

Geti endurselt umframorkuna

SI vilja auka samkeppni meðal raforkuframleiðenda á Íslandi þannig að hlutdeild Landsvirkjunar sem er með yfir 70% markaðshlutdeild þyrfti að minnka. Leggja samtökin einnig til að opnað verði á heimildir raforkukaupenda til að endurselja umframorku inn á raforkukerfið sem þeir hafa ekki not fyrir.

Í skýrslunni kemur fram að gjaldeyrissköpun stórnotenda raforku er nú orðin meiri en heildargjaldeyristekjur af útflutningi sjávarafurða eða um 260 milljarðar króna á seinasta ári.

,,Það er þörf á leiðarvísi frá stjórnvöldum um það hvernig þau sjá fyrir sér umhverfið, vegna þess að allt snýst þetta um samkeppnishæfni Íslands. Samkeppnishæfnin er eins og nokkurskonar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum,“ segir Sigurður í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert