Þörf á virkri samkeppni

Í skýrslu SI segir að gjaldeyrissköpun stórnotenda raforku sé nú …
Í skýrslu SI segir að gjaldeyrissköpun stórnotenda raforku sé nú meiri en gjaldeyristekjur af útflutningi sjávarafurða eða um 260 milljarðar 2018. Vöxtur greinarinnar hefur aukið stöðugleika hagkerfisins. mbl.is/RAX

Mikill þjóðhagslegur ávinningur hefur verið af raforkuframleiðslu hér á landi og brýnt er að efla samkeppnishæfnina. 50 ár eru síðan orkusækinn iðnaður skaut hér rótum og má áætla að framlag stórnotenda raforku til verðmætasköpunar hér á landi hafi verið um 2.100 milljarðar kr. á þeim tíma. Um 80% af þessu framlagi hafa fallið til á 21. öldinni. Tryggja þarf samkeppnishæft raforkuverð, þ.m.t. dreifi- og flutningskostnað, í samanburði við önnur lönd þar sem litið verði m.a. til opinberra endurgreiðslna á grundvelli umhverfissjónarmiða vegna nýtingar á grænni orku.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins um íslenska raforkumarkaðinn sem kynnt er á opnum fundi sem hófst klukkan hálf níu í morgun. Í skýrslunni má finna fjölmargar tillögur að úrbótum á raforkumarkaðinum. Lagt er m.a. til að skilið verði að fullu á milli eignarhalds raforkufyrirtækja í Landsneti og stuðlað að fullum aðskilnaði í rekstri þessara fyrirtækja.

Settar eru fram tillögur á fjölmörgum sviðum og minnt er á að með þeirri markaðsopnun sem komið var á með raforkulögum árið 2003 urðu grundvallarbreytingar á starfsemi og starfsháttum á raforkumarkaði, þ.m.t. yfirfærsla úr því umhverfi sem einkenndist af áætlunarbúskap yfir í markaðsumhverfi. Eftir sem áður markist starfsemi íslensks raforkumarkaðar af margvíslegum hömlum, opinberu inngripi og stefnumörkun.

Grafík/mbl.is

Stjórnvöld taki af skarið

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir í samtali við Morgunblaðið að við blasi að stjórnvöld þurfi að taka af skarið með stefnumörkun í orkumálum. Orkustefna fyrir Ísland sé nú í mótun en einnig sé tímabært að móta eigendastefnu hins opinbera gagnvart orkufyrirtækjum í opinberri eigu. Stefnumótun um þau mál hafi verið boðuð í einhvern tíma en hún hafi ekki enn litið dagsins ljós. Ráðherra hafi boðað aðskilnað Landsvirkjunar og Landsnets sem yrði þá í eigu ríkisins en er í dag dótturfélag Landsvirkjunar.

„Það er þörf á leiðarvísi frá stjórnvöldum um það hvernig þau sjá fyrir sér umhverfið, vegna þess að allt snýst þetta um samkeppnishæfni Íslands. Samkeppnishæfnin er eins og nokkurskonar heimsmeistaramót þjóða í lífsgæðum. Þeim mun meiri sem samkeppnishæfnin er þeim mun meiri verðmæti verða til skiptanna og lífsgæðin þar af leiðandi meiri,“ segir Sigurður. Ákvarðanir og stefnumörkun stjórnvalda í orkumálunum hafi svo mikið um ákvarðanir almennings og fyrirtækja að segja að brýnt sé að hún liggi skýr fyrir.

„Það er samkeppni á þessum markaði og á þessari öld hefur löggjöfin tekið heilmiklum breytingum þar sem komið hefur verið á laggirnar raforkumarkaði en hann er hins vegar ekki eins virkur og skyldi.

Eitt af því sem þyrfti að taka til skoðunar er hvernig hægt sé að auka virknina á raforkumarkaðinum,“ segir hann ennfremur.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Geti endurselt umframorkuna

Ein af tillögum til úrbóta sem settar eru fram í skýrslunni er að opnað verði á heimildir raforkukaupenda til að endurselja inn á raforkukerfi umfram orku sem þeir aðilar hafa ekki not fyrir. Sigurður segir þetta áhugavert mál. „Við sjáum t.d. í Noregi að þar gera stórnotendur tvíhliða samninga við orkufyrirtæki en hafa heimild til þess að selja inn á markaðinn ef það hentar. Markaðurinn verður þá skilvirkari fyrir vikið og um leið getur þetta varðað orkuöryggið. Við þessar aðstæður gætu framleiðendur t.d. ákveðið að draga úr framleiðslu ef verð raforkunnar er hátt og selt inn á kerfið eða ákveðið að auka framleiðsluna ef það er talið vera hagstætt. Það eru því margvíslegar ástæður fyrir því að þetta er heppilegt fyrirkomulag.“

Samspil raforkumála og loftslagsmálanna er einnig þýðingarmikið og bendir Sigurður á að Ísland tilheyrir evrópsku regluverki þar sem orkumál og loftslagsmál eru samofin.

„Kolefnisgjöld sem lögð eru á í Evrópu hafa áhrif á orkuverðið í Evrópulöndum þar sem orkan er að stórum hluta framleidd úr „óhreinum“ orkugjöfum, öfugt við okkar hreinu orku, geta skekkt verðlagninguna og bregðast þarf við þeirri stöðu til að rétta af okkar samkeppnishæfni,“ segir hann.

1.600 milljarða fjárfesting

Í skýrslu SI er einnig lagt til að sköpuð verði skilyrði fyrir virkri samkeppni á raforkumarkaði með skýrum leikreglum og virku eftirliti. Og lagt er til að mat á orkuþörf verði unnið í samvinnu við hagsmunaaðila, s.s. stórnotendur, á þá vegu að orkuspá endurspegli raunverulega eftirspurn til lengri tíma litið.

Í sérstakri umfjöllun um þjóðhagslegan ávinning af raforkuframleiðslu og nýtingu segir að fjárfestingar tengdar stóriðju og tengdri raforkuframleiðslu hafi verið miklar og samanlagt yfir síðastliðin 50 ár nemi þessi fjárfesting um 1.600 milljörðum kr. „Til að setja þetta í samhengi nam heildarfjárfesting í hagkerfinu, þ.e. heimila, fyrirtækja og hins opinbera, 628 [milljörðum kr.] á síðasta ári.“

Síðustu tvo áratugi hafi gjaldeyristekjur þjóðarinnar vegna stóriðju margfaldast. „Gjaldeyrissköpun stórnotenda raforku er nú orðin meiri en heildargjaldeyristekjur af útflutningi sjávarafurða eða um 260 [milljarðar kr.] á árinu 2018. Vöxtur þessarar greinar hefur aukið stöðugleika hagkerfisins til heilla fyrir fyrirtæki og heimili í landinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert