Ný áætlun „skellir Árneshreppi í lás“

Árneshreppur að vetrarlagi.
Árneshreppur að vetrarlagi. mbl.is/Sunna Logadóttir

Í endurskoðaðri samgönguáætlun eru mörg ánægjuleg skref stigin fyrir Vestfirði, eins og t.d. að framkvæmdum á veginum um Dynjandisheiði hafi verið flýtt. En þar er líka margt sem veldur vonbrigðum fyrir byggðaþróun og atvinnulíf á Vestfjörðum. Þetta segir Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu. Hún segir að ekki sé hægt að túlka áætlunina á annan hátt en að „skella eigi í lás“ í Árneshreppi, þar sem ekki eigi að fara í endurbætur á veginum yfir Veiðileysuháls.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son­,sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra, kynnti í morgun upp­færða og end­ur­skoðaðasam­göngu­áætl­un fyr­ir tíma­bilið 2020-2034. Áætlunin er komin inn í samráðsgátt stjórnvalda þar sem hægt verður að gera athugasemdir við hana til loka mánaðarins.

Sigríður Ó. Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu
Sigríður Ó. Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu

„Við fögnum því að Dynjandisheiðin sé komin inn á 1. tímabil, en hún var ekki öll þar,“ segir Sigríður. Með því vísar hún til þess að framkvæmdunum er skipt á þrjú fimm ára tímabil og með því að vera á 1. tímabili á framkvæmdum á Dynjandisheiði að ljúka 2024. „Í raun vantar samt enn Bíldudalslegginn þar inn, hann er á 2. tímabili.“

Fagnar skosku leiðinni 

Sigríður segir að einnig sé ánægjulegt að Innstrandarvegur sé kominn inn á samgönguáætlun, en segir miður að heilsársvegur yfir Veiðileysuháls hafi nú verið færður á 2. tímabil, en hann átti að vera á næsta ári. Með þeirri ákvörðun er hætt við því að Árneshreppur einangrist í þá þrjá mánuði á ári sem snjómokstri er ekki sinnt. „ Að lokað sé leiðum að byggð nokkra mánuði á ári þýðir bara eitt; að skella í lás í Árneshreppi.

Sigríður fagnar því að taka eigi upp skosku leiðina svonefndu, en mark­mið hennar er að auka aðgengi að flugþjón­ustu á viðráðan­legu verði frá jaðarbyggðum. Í Skotlandi hef­ur það verið gert með því að ríkið greiði fyr­ir af­slátt sem nem­ur helm­ing farmiðans til þeirra sem búa á jaðarsvæðum.  „En það lagar ekki flugvellina, en það er ekki gert ráð fyrir nægilegu fé til að halda þeim við.  Þeir innanlandsflugvellir, sem ekki eru skilgreindir sem varaflugvellir í millilandaflugi, eru í raun munaðarlausir. “

Á svæðinu eru þrír flugvellir; á Ísafirði, Bíldudal og Gjögri og Sigríður segir að flogið sé á þá alla nánast alla daga. 

Hafnarbætur brýnar

Þá segir hún að víða sé uppsöfnuð þörf fyrir hafnarbætur víða á Vestfjörðum. „Til dæmis er það afar brýnt á Bíldudal, það má segja að þar ríki neyðarástand. Þar er ný atvinnugrein að byggjast upp  Hún fagnar lengingu, sem á að gera á kanti hafnarinnar á Ísafirði á næsta ári. Það sé brýn framkvæmd, bæði vegna móttöku skemmtiferðaskipa sem verður sífellt stærri atvinnugrein á Vestfjörðum og vegna uppbyggingar í fiskeldi. „Öll uppbygging á þessu svæði er sjávartengd þannig að hafnir skipta öllu máli í nánast öllum byggðakjörnum,“ segir Sigriður.

Vestfirskur vegur
Vestfirskur vegur mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Samgöngurnar ekkert einkamál Vestfirðinga

Hún segir að það komi á óvart, miðað við þá stefnumótun og umræðu sem verið hafi, að  framlag til almenningssamgangna á svæðinu verði ekki hækkað. Íbúar á svæðinu hafi viljað leggja áherslu á almenningssamgöngur á milli byggðakjarna, en eins og staðan sé núna sé eingöngu boðið upp á þær á sumrin. „Það er hluti af því, að við getum búið hérna eins og á einu svæði, að fólk komist til vinnu og tómstunda á milli byggðarkjarna. Samgöngurnar eru lykillinn að svo mörgu og það er ekkert einkamál okkar á svæðinu að þær séu sem bestar,“ segir Sigríður.

mbl.is