„Erum að horfa á nýja framtíð á Austurlandi“

Egilsstaðir á Fljótsdalshéraði.
Egilsstaðir á Fljótsdalshéraði. mbl.is/Sigurður Bogi

„Verði þessi áætlun að veruleika erum við að horfa á nýja framtíð á Austurlandi.“ Þetta segir Einar Már Sigurðarson, formaður Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi um drög að endurskoðaðri samgönguáætlun sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra kynnti í morgun.  „Hérna er verið að rétta okkar hlut. Við höfum beðið býsna lengi og nú er bara að tryggja að þetta fari í gegnum þingið,“ segir Einar Már.

Sú sam­göngu­áætl­un sem nú er í gildi er fyr­ir árin 2019 - 2033,  en á fund­in­um kynnti sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra end­ur­skoðaða áætl­un frá og með næsta ári til árs­ins 2034.

Í áætluninni er gert ráð fyrir því að 20,3 milljörðum verði varið til samgönguframkvæmda á þessu tímabili. Þessu til viðbótar eru framkvæmdir við Fjarðaheiðargöng og Seyðisfjarðargöng sem áætlað er að muni kosta samtals 25,7 milljarða á tímabilinu. 

Fjallvegir verða engin hindrun

Einar Már segir jarðgöngin vera það sem mestu máli skipti. „Þegar þau verða komin verður miðsvæði Austurlands orðið eitt svæði. Fjallvegir verða engin hindrun lengur. Þetta gefur atvinnulífinu og íbúaþróuninni hér gríðarleg tækifæri og núna hlökkum við til að skipuleggja okkur og horfa til framtíðar.“

Einar Már Sigurðarson
Einar Már Sigurðarson

Þau sveitarfélög  sem Einar Már talar um í þessu sambandi eru Fjarðarbyggð og nýtt sameinað sveitarfélag Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar, Fljótsdalshéraðs og Djúpafjarðarhrepps, þ.e. samþykki íbúar sameininguna, en kjósa á um hana 26. október. Á þessu svæði búa samtals um 10.000 manns.

Taka jákvætt í gjaldtöku

Hann segir að með þessu skapist ný sóknarfæri í atvinnulífinu. Hafa verði í huga að Seyðisfjörður, þar sem Norræna leggst að bryggju, sé ein af gáttunum inn í landið. Ferðaþjónusta hafi vaxið á svæðinu og verið sé að byggja upp fiskeldi. Þá sé þar næst stærsta höfn landsins; Mjóeyrarhöfn á Reyðarfirði. „Með öllum þessum samgöngubótum getum við t.d. farið með fiskinn beina leið til Seyðisfjarðar án þess að hafa áhyggjur af vetrarfærð.“

Í máli ráðherra á kynningunni í morgun kom fram að gjaldtaka væri fyrirhuguð á nokkrum leiðum á landinu. Það tengdist svokölluðum samvinnuverkefnum þar sem einkaaðilar og ríki tækju höndum saman við samgönguverkefni. Vegurinn um Öxi var nefndur í þessu sambandi. Einar segir sveitarstjórnaryfirvöld á Austurlandi vera reiðubúin til að skoða slíkar nálganir, sú afstaða hafi komið fram á haustþingi Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi nýverið. „Við þurfum að vera raunsæ í þessum efnum. Með þessari leið er hægt að flýta framkvæmdum verulega og við erum tilbúin til að horfa til gjalda svo það megi verða að veruleika.“

Fagnar skosku leiðinni

Einar Már fagnar því að endurbætur á Suðurfjarðarleið að Berufirði séu á áætluninni. Þar séu einbreiðar brýr og slæmur vegur. „Það var löngu kominn tími á þessar vegabætur,“ segir Einar Már. Þá fagnar hann því að í áætluninni sé Egilsstaðaflugvöllur settur í forgang í uppbyggingu sem varaflugvöllur. 

Annað sem Einar segir að skipti íbúa á svæðinu miklu máli er að ráðherra sagðist vilja taka upp svokallaða skoska leið sem felur í sér niðurgreiðslu fargjalda í innanlandsflugi fyrir íbúa á landsbyggðinni. „Við fögnum þeim áfanga að það eigi að verða stefna stjórnvalda að jafna aðgengi fólks að þessu leyti,“ segir Einar Már, en ekki liggur fyrir hversu mikið fargjaldið verður greitt niður.  „Eins og staðan er núna erum við að tala um 60.000 krónur fram og til baka á milli Egilsstaða og Reykjavíkur. Það segir sig sjálft að það er ekki fyrir venjulegt fólk að borga slíkt.“

Einar Már segir þessar fyrirhuguðu samgöngubætur forsendurnar fyrir frekari vexti á svæðinu. „Með þessu gætum við orðið raunverulegur valkostur við höfuðborgarsvæðið og Eyjafjarðarsvæðið; eitthvað sem við erum ekki í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina