„Fátt sem kveikir meira í fólki en samgöngumál“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist skynja smávægilegan titring vegna uppfærðrar samgönguáætlunar …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist skynja smávægilegan titring vegna uppfærðrar samgönguáætlunar en það sé eðlilegt þegar samgöngumál séu rædd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held það sé nú ekki neinn gríðarlegur titringur. Minn skjálftamælir mælir smávægilegan titring og það er nú líka venjan þegar samgöngumál eru rædd,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra spurð um meintan titring í ríkisstjórnarsamstarfinu vegna óvæntrar kynningar Sigurðar Inga Jóhannessonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, á nýrri og uppfærðri samgönguáætlun fyrir árin 2020 til 2034 sem fór fram í morgun.

„Þetta eru stór mál og það er verið að tala um miklar breytingar og miklar framkvæmdir. Þannig að fyrst og fremst á ég von á því að við munum sjá miklar athugasemdir í samráðsgáttinni og ég á von á miklum umræðum í þinginu. Það er fátt sem kveikir meira í fólki en samgöngumál,“ bætir hún við.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti uppfærða og endurskoðaða samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020 til 2034 á opnum morgunverðarfundi í Norræna húsinu í morgun. Áætlunin var hvorki kynnt fyrir ríkisstjórn né þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna áður en fundurinn, sem var í beinni útsendingu, fór fram. Fréttablaðið greindi frá því fyrr í dag að mikill titringur væri í ríkisstjórnarsamstarfinu vegna þess.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti óvænt nýja og …
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti óvænt nýja og uppfærða samgönguáætlun á morgunverðarfundi í Norræna húsinu í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Málið sé í samráðsferli og geti tekið breytingum

Katrín sagði að samgönguráðherra hefði einfaldlega verið að setja nýja og uppfærða samgönguáætlun í samráðsgátt stjórnvalda og að mál sem færu þangað inn væru vanalega ekki kynnt sérstaklega í ríkisstjórn eða þingflokkum áður.

„Það er stöðugt verið að setja mál í opið samráð, mál sem oft taka miklum breytingum í slíku ferli, og það er alls ekki þannig að þau mál hafi alltaf farið í gegnum ríkisstjórn eða þingflokka áður.“

„Ég ímynda mér nú að flest sé kunnuglegt í þessari samgönguáætlun og ég hef ekki stórar áhyggjur af henni. Hún á eftir að koma inn á okkar borð síðar í þessu ferli,“ bætti hún við.

Hugmyndir um gjaldtöku verði að vera settar í samhengi

Í drögum að nýrri samgönguáætlun er gert ráð fyrir gjaldtöku í tiltekinn tíma fyrir akstur um Sundabraut, á nýrri brú yfir Ölfusfljót, um tvöföld Hvalfjarðargöng og um jarðgöng um Reynisfjall og Axarveg svo eitthvað sé nefnt. Eru það svokölluð samvinnuverkefni einkaaðila og ríkis þar sem gjaldtaka verður í afmarkaðan tíma en síðan verður eignarhald innviða afhent ríkinu í lok samningstíma.

„Þessar hugmyndir hafa verið kynntar, að einhverjar framkvæmdir verði teknar í sérstakt ferli, um einhvers konar samvinnuverkefni. Mér finnst auðvitað að það þurfi að skoða þá gjaldtöku í samhengi við þá breytingu sem við munum sjá verða á gjaldtöku á umferð almennt og við höfum verið að tala um í tengslum við höfuðborgarsvæðið,“ segir Katrín um þessar hugmyndir og bætir við:

„Við erum að fara inn í orkuskipti þar sem við erum að fara sjá tekjur, sem hafa átt að standa undir samgöngukerfinu okkar, af bensíni og dísil fara niður. Á sama tíma erum við að veita ívilnanir fyrir þá sem eru að skipta yfir á umhverfisvænni ökutæki og það liggur alveg fyrir að stóru úrlausnarefnin núna framundan eru hvernig við ætlum að haga gjaldtöku á umferð þannig að við getum staðið undir öllum þeim framkvæmdum sem við viljum ráðast í. Þannig mér finnst þetta þetta verði allt að vera sett í samhengi.“

mbl.is