„Í besta falli hagræðing á sannleikanum“

Sveinn Andri Sveinsson er lögmaður Ingvars.
Sveinn Andri Sveinsson er lögmaður Ingvars. mbl.is/Eggert

Deilt var um aðild að máli sem varðar 540 milljóna greiðslu frá Valitor til Wikileaks í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrr í dag.

Fyrirtækið DataCell, sem annaðist fjáröflun fyrir Sunshine Press Productions (SPP), rekstrarfélag Wikileaks, hefur stefnt Ingvari Heiðari Þórðarsyni, þriðja aðila í málinu, en lögmaður Ingvars, Sveinn Andri Sveinsson, telur að málið gangi ekki upp réttarfarslega séð þar sem Ingvari er einum stefnt en ekki Sunshine Press Productions (SPP), rekstrarfélagi Wikileaks.

Sveinn Andri segir að Ingvar og SPP eigi óskipta aðild að málinu. Hann krefst þess að málinu sé vísað frá. Lögmaður DataCell, Friðbjörn Eiríkur Garðarsson, telur að SPP eigi ekki aðild að málinu. Ágreiningur er uppi um það hvernig bótafjárhæðin frá Valitor skuli skiptast á milli SPP og Data Cell.

Ingvar og SPP báðu í sameiningu um endurupptöku máls sem varðar kyrrsetningu á bótafé frá Valitor og eru því báðir aðilar gerðarþolar í málinu en Datacell er gerðarbeiðandi. 

Ingvar er veðhafi í bótafjárhæðinni og var endurupptökubeiðni hans og SPP samþykkt þar sem talið var að Ingvar hefði ekki átt þess kost að koma fram mótmælum gegn kyrrsetningunni. 

Vísa skuli málinu frá

„Það liggur fyrir að endurupptökubeiðendurnir séu tveir og að báðir hafi stöðu gerðarþola. Það er í besta falli hagræðing á sannleikanum að sleppa öðrum gerðarþola,“ sagði Sveinn Andri í munnlegum málflutningi vegna málsins í dag. 

Ef þeim er ekki báðum stefnt þá skal vísa málinu frá,“ bætti Sveinn við.

Forsaga málsins er sú að DataCell annaðist greiðslugátt vegna fjáröflunar SPP. Árið 2011 rauf Valitor fyrirvaralaust greiðslugáttarþjónustu við fyrirtækin með tilheyrandi tekjutapi. Eftir áralöng málaferli náðist dómsátt þar sem Valitor greiddi fyrirtækjunum 1,2 milljarða króna.  

Upphæðin skyldi skiptast þannig að SPP fengi 1.140 milljónir en DataCell 60 milljónir. Stuttu eftir að Valitor samþykkti að greiða bæturnar fór DataCell fram á kyrrsetningu þar sem fyrirtækið taldi sig eiga rétt á stærri hluta fjárhæðarinnar. 

Sýslumaður samþykkti að kyrrsetja 540 milljónir króna í júlí síðastliðnum en áður en stefna vegna staðfestingar á kyrrsetningunni var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur krafðist SPP þess að sýslumaður myndi endurupptaka kyrrsetninguna þar sem hluti fjárhæðarinnar hafði verið veðsett þriðja aðila. Þeim aðila, Ingvari, hafði ekki gefist kostur á að gæta hagsmuna sinna í samræmi við lög um kyrrsetningu og á þeim forsendum samþykkti sýslumaður að endurupptaka kyrrsetninguna. 

Telur ákvörðunina liggja hjá dómstólum

DataCell rekur núna tvö mál fyrir héraðsdómi vegna kyrrsetningarinnar. Annars vegar mál til staðfestingar kyrrsetningarinnar frá því í júlí og hins vegar málskot til héraðsdóms vegna ákvörðunar sýslumanns að endurupptaka kyrrsetninguna en það er málið sem deilt var um í dag.  

DataCell telur að það sé dómstóla að ákvarða hvort varnaraðilarnir séu bæði Ingvar og SPP eða einungis Ingvar. 

Friðbjörn Eiríkur Garðarsson, lögmaður DataCell.
Friðbjörn Eiríkur Garðarsson, lögmaður DataCell.

Málið sem DataCell höfðar á hendur Ingvari beinist, að sögn Sveins Andra, sérstaklega að SPP sem hefur síðan ekki aðild að málinu.  

Þarna er verið að krefjast úrskurðar héraðsdóms sem beinist að SPP en SPP er ekki varnaraðili að málinu. Það er náttúrulega algjörlega galið,“ sagði Sveinn Andri.

SPP og Ingvar hafi óskipta aðild

Að sögn Sveins Andra hafa SPP og Ingvar óskipta aðild að málinu og því sé ekki hægt að stefna öðrum aðilanum og ekki hinum. Ef þeir sem beri óskipt réttindi séu sóttir til saka í sitt hvoru lagi þá skuli vísa málinu frá. Óhjákvæmilegt sé að báðir aðilar eigi aðild að málinu vegna óskipts réttar. 

Friðbjörn krafðist þess að frávísunarkröfu varnaraðila verði hafnað og sóknaraðila sé greiddur hæfilegur málskostnaður. 

SPP ekki heimilt að krefjast upptöku

Hann sagði að Sveinn Andri hefði slitið ákvörðun um endurupptöku kyrrsetningarinnar úr samhengi við sjálfa sig með því að minnast þess ekki að endurupptakan hafi verið samþykkt á grundvelli þess að Ingvar væri veðhafi. 

Friðbjörn sagði að heimild væri fyrir því í lögum að þriðji aðili, Ingvar, gæti krafist endurupptöku en ekki gerðarþoli, SPP. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert