Rafrænir fylgiseðlar myndu stórauka framboð lyfja

Lyfjaframboð á Íslandi myndi aukast til muna með innleiðingu rafrænna …
Lyfjaframboð á Íslandi myndi aukast til muna með innleiðingu rafrænna fylgiseðla. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Innleiðing rafrænna fylgiseðla með lyfjum myndi stórbreyta framboði lyfja á Íslandi. Markaðssvæðið á Íslandi myndi stækka til muna með innleiðingu rafrænna lyfseðla auk þess sem íslenskur lyfjamarkaður yrði töluvert meira spennandi fyrir erlend lyfjafyrirtæki. Þetta segir Sigurbjörg S. Guðmundsdóttir lyfjafræðingur.  

Undir forystu Íslands náðist samstaða meðal Norðurlandaþjóðanna um að fara þess á leit við Evrópusambandið að reglur verði endurskoðaðar þannig að aðildarríkjum verði heimilt að nota rafræna fylgiseðla með lyfjum í stað prentaðra eins og nú er krafist. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sendi í sumar erindi þess efnis til framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins fyrir hönd allra heilbrigðisráðherra Norðurlandanna. 

Ísland aftarlega á forgangslista erlendra lyfjafyrirtækja 

Sigurbjörg hélt erindi á blaðamannafundi heilbrigðisráðuneytisins um rafræna fylgiseðla í morgun. 

Sigurbjörg segir kostina við rafræna fylgiseðla vera fjölmarga og veigamikla. 

„Ég hef verið að vinna hjá lyfjafyrirtækjum erlendis, bæði í Svíþjóð og Englandi og hef gert það núna í sjö ár. Þá sé ég svart á hvítu hvað Ísland er lítill markaður og að við séum aftast í forgangi hjá lyfjafyrirtækjum. Á sama tíma er mikill lyfjaskortur á Íslandi,“ segir Sigurbjörg í samtali við mbl.is. 

„Með hverjum lyfjapakka sem er seldur þarf að vera fylgiseðill á íslensku. Ef að þetta er ekki til staðar er ekki hægt að selja lyfin. Lyfjafyrirtæki hafa ekki mikinn áhuga á að selja 3.000 pakka til Íslands þegar það er svona mikið umstang í kringum það með fylgiseðla. Ef við værum með rafræna fylgiseðla gæti markaðurinn verið miklu stærri. Þá værum við ekki lengur bundin við eitt markaðssvæði. Þetta myndi hafa gríðarlega mikla þýðingu fyrir lyfjaskort á Íslandi,“ segir Sigurbjörg. 

Myndi auka öryggi sjúklinga 

Sigurbjörg segir núverandi fyrirkomulag ekki vera nægilega hagnýtt fyrir íslenskan lyfjamarkað. 

„Norðurlöndin eru með samráð svo að á fylgiseðlum eru upplýsingar á fleiri tungumálum. Þetta er mjög falleg hugmynd til að stækka markaðssvæðið en það gengur ekki alveg eins og það á að ganga því að allar nauðsynlegar upplýsingar á mörgum tungumálum komast ekki alltaf fyrir á pappír. Þetta er ekki svo praktískt. 

Sigurbjörg S. Guðmundsdóttir, lyfjafræðingur.
Sigurbjörg S. Guðmundsdóttir, lyfjafræðingur. Ljósmynd/Aðsend

„Þar fyrir utan erum við líka að fá kvartanir frá fólki sem hreinlega getur ekki lesið á prentaða fylgiseðla því letrið er svo smátt. Þá er fylgiseðillinn ekki einu sinni að gegna því hlutverki sem hann á að gegna,“ segir Sigurbjörg. 

„Svo að þetta er ekki einungis spurning um að auka framboð á lyfjum og stækka markaðssvæðið og gera Ísland að áhugaverðum stað fyrir lyfjafyrirtæki, heldur líka bara að auka öryggi sjúklinga.“

Sigurbjörg segir margar leiðir koma til greina hvað varðar útfærslu rafræna lyfseðla. 

„Það yrði til dæmis ekkert vandamál að nota strikamerki sem hægt er að skanna í símanum og fá upplýsingar. Tæknin er til staðar, þetta er bara spurning um hvernig við ætlum að nota hana.“

Aðrar þjóðir rólegri 

Þá segir Sigurbjörg að rafrænir fylgiseðlar séu mun meira hagsmunamál fyrir Íslendinga en hinar Norðurlandaþjóðirnar. 

„Ísland eiginlega hangir á bláþræði. Það er svo mikill lyfjaskortur hérna þannig að yfirvöld vilja finna leiðir til að breyta þessu sem allra fyrst. Önnur lönd eru frekar að glíma við önnur vandamál, eins og þegar fólk af erlendu bergi brotið kaupir lyf og lyfseðillinn er kannski bara á sænsku. En af því að Ísland er komið í krítíska stöðu útaf lyfjaskorti er miklu meiri hvati hjá Íslandi til að breyta þessu. Á meðan eru aðrar þjóðir rólegri.“

Sigurbjörg segist vera bjartsýn á að rafrænir fylgiseðlar verði að veruleika áður en langt um líður. Kostirnir séu mun fleiri en gallarnir. 

„Vandkvæðin eru helst að sumir eru enn svolítið hræddir við tæknina og síðan hvernig nákvæmlega þetta yrði útfært. Annars er kostirnir miklu fleiri en gallarnir. Það er mjög raunhæft að vinna úr þeim vandkvæðum sem eru til staðar, þetta eru ekki neinar hindranir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert