„Það er þvælan“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, gerði fjölda dómara við Landsrétt …
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingar, gerði fjölda dómara við Landsrétt að umtalsefni í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun. mbl.is/Hari

„Er ekki komið gott af þeim ásetningi Sjálfstæðisflokksins að þvælast fyrir góðu starfi dómstóla í landinu?“ spurði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í morgun. 

Spurning hennar beindist til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra. Helga Vala sagði dómstólasýsluna hafa gengið grýtta bónleið til dómsmálaráðherra um nauðsynlega fjölgun dómara við réttinn frá því Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp dóm sinn í landsréttarmálinu í mars. 

Dóm­stóll­inn komst að þeirri niður­stöðu í mars að ís­lenska ríkið hefði brotið gegn sjöttu grein Mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu við skip­an fjög­urra dóm­ara við Lands­rétt sem voru ekki metn­ir meðal 15 hæf­ustu af sér­stakri hæfis­nefnd. 

Dóm­ar­arn­ir fjór­ir hafa ekki dæmt við rétt­inn frá því að MDE kvað upp dóm sinn í mars. Tveir óskuðu eft­ir launuðu leyfi til ára­móta en hinir ekki. Því hef­ur ein­ung­is verið ráðið í stöður dóm­ar­anna tveggja sem óskuðu eft­ir leyfi og starfa því 13 dómarar við Landsrétt. 

„Er það ekki hluti af ábyrgð hæstvirts ráðherra að tryggja að dómskerfið starfi með eðlilegum hætti og íbúar landsins fái notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir dómi?“ spurði Helga Vala. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna sagði það þvílíka þvælu að tala um að Sjálfstæðisflokkurinn væri af ásetningi að standa í vegi fyrir góðri framkvæmd dómstólanna. Þá sagði hún það erfitt að halda því fram með einhverjum hætti að dómurinn væri óstarfhæfur. Fimmtán væri einungis tala sem miðað var við þegar Landsréttur var settur á laggirnar fyrir um tveimur árum. „Þegar þessi löggjöf var ákveðin var 15 engin tala af dómurum sem var rannsökuð sérstaklega um að vera hin fullkomna tala,“ svaraði Áslaug Arna. 

Helga Vala svaraði og sagði það enga þvælu að tala um að Landsréttur „sé haltur þegar það vantar alla þessa dómara“. 

„Það verður að segjast eins og er að það hafa mjög margir áhyggjur af ástandi, meðal annars formaður dómstólasýslunnar,“ bætti hún við og sagði dómsmálaráðherra ekki meðvitaðan um alvarleika málsins. 

Þá bað dómsmálaráðherra þingmanninn um að leggja sér ekki orð í munn að hann tali um þvælu þegar hún tali um málefni Landsréttar. „Ég sagði að það væri þvæla að háttvirtur þingmaður héldi því fram að það væri ásetningur Sjálfstæðisflokksins að Landsréttur starfaði eðlilega. Það er þvælan.“

Áslaug sagðist hafa rætt við Benedikt Bogason, formann dómstólasýslunnar, um stöðu mála. „Það er verið að skoða málin, leggja mat á stöðuna, en það þarf að fara sér hægt áður en maður gerir stórkostlegar breytingar þegar málin ganga vel. Það eru til aðrir kostir, eins og að halda áfram að setja dómara fyrir þá sem eru í leyfi.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert