Þyrlan flutti tvo tönn af rusli

Alls flutti þyrla gæslunnar um tvö tonn af rusli úr …
Alls flutti þyrla gæslunnar um tvö tonn af rusli úr friðlandinu í Búðahrauni og úr Beruvík í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli í átta ferðum. Þjóðgarðurinn mun láta flytja ruslið í endurvinnslu í Ólafsvík. Ljósmynd/Umhverfisstofnun

Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti í gær um tvö tonn af rusli úr friðlandinu í Búðahrauni og úr Beruvík í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli frá strandlengju og upp á veg. Alls flaug þyrlan átta ruslaferðir. 

Um er að ræða samansafnað fjörurusl og mun þjóðgarðurinn láta flytja ruslið í endurvinnslu í Ólafsvík. Verkefnið gekk vel að sögn þjóðgarðsvarðar, Jóns Björnssonar. 

Fram kemur á vef Umhverfisstofnunar að frumkvæði að hreinsuninni kemur frá Sigurði Vigfússyni sem býr á Bjarnarfossi, skammt frá friðlandinu í Búðahrauni og færir þjóðgarðsvörður honum bestu þakkir fyrir. 

Meginkostur þess að nota þyrlu til sorphreinsunar við verkefni eins og þessi er að umrædd svæði eru erfið yfirferðar og víða óaðgengileg. 

Haft er eftir Jóni að áfram verður unnið að því að hreinsa rusl úr fjörum þjóðgarðsins og nálægra friðlanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert