900 milljóna króna skaðabótamálum vísað frá dómi

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Þór

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði frá dómi í dag skaðabótamálum Samtökum sparifjáreigenda gegn Ólafi Ólafssyni annars vegar og Hreiðari Má Sigurðssyni hins vegar. Samtökin kröfðust 900 milljóna króna í skaðabætur frá hvorum þeirra vegna markaðsmisnotkunar sem átti sem stað í Kaupþingi banka á árunum 2007 og 2008.

Krafa samtakanna var tilkomin vegna kaupa Stapa lífeyrissjóðs á hlutabréfum í Kaupþingi á árinu 2008 en Samtök sparifjáreigenda eignuðust að lokum hlutabréfin og réttindi sem þeim fylgja fyrir framsal.

Málsóknirnar byggðu meðal annars á markaðsmisnotkun Ólafs og Hreiðars sem þeir voru sakfelldir fyrir í Al Thani-málinu. Samtök sparifjáreigenda telja að bein orsakatengsl séu á milli markaðsmisnotkunar Ólafs og Hreiðars og fjártjóns Stapa vegna kaupa á hlutabréfum í Kaupþingi.

Framsalið væri málamyndagerningur

Dómurinn taldi að framsal hlutabréfanna og réttinda þeirra frá Stapa til Samtaka sparifjáreigenda bæri með sér að það væri málamyndagerningur og hann hefði ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins, „Varði þetta frávísun málsins,“ sagði þar.

Þá var krafa samtakanna um meint fjártjón einnig talin „svo vanreifuð að ekki verði hjá því komist að vísa henni frá dómi.“ Sama átti við um varakröfu, þrautavarakröfu og þrautaþrautavarakröfu Samtaka sparifjáreigenda.

„Með vísan til alls þessa telur dómurinn málatilbúnað stefnanda svo vanreifaðan að ekki verði hjá því komist að vísa öllum dómkröfum stefnanda frá dómi,“ sagði í báðum úrskurðum.

Samtökin höfðu áður höfðað skaðabótamál gegn Ólafi, Hreiðari, Sigurði Einarssyni og Magnúsi Guðmundssyni vegna sömu atvika en því máli var vísað frá dómi vegna vanreifunar með úrskurði Hæstaréttar í janúar árið 2018.

Úrskurður í máli Ólafs Ólafssonar.

Úrskurður i máli Hreiðars Más Sigurðssonar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert