„Börnin okkar eiga betra skilið en þetta“

Skjáskot/#allirkrakkar

Mikið áhorf á klám hefur mikil áhrif á unglinga og það þekkist bæði hér heima og erlendis að ungir karlmenn þurfi að kaupa sér lyf því venjulegt kynlíf örvar þá ekki nóg.

Þetta segir Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra jafnréttismála á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar. Hún hélt erindi undir yfirskriftinni „Mér finnst það bara verða grófara og grófara“ á málþingi um forvarnir og fræðslu gegn kynferðislegu ofbeldi.

Í erindi sínu fór Kolbrún meðal annars yfir niðurstöður úr nýjustu könnun rannsóknar á greiningu á klámáhorfi grunnskólabarna á unglingastigi. „Þær sýna að 63% stráka í 10. bekk horfa á klám einu sinni í viku til nokkrum sinnum á dag,“ segir Kolbrún í samtali við mbl.is.

Alltaf með kamagara á sér

Þá segir hún nýlega rannsókn hennar og Þórðar Kristinssonar á áhrif klámáhorfs á íslenska unglinga sýna fram á það sama og erlendar rannsóknir: að það hafi mikil áhrif á kynheilbrigði og kynlífsánægju þeirra.

„Það lýsir sér meðal annars í því að ungir strákar eru farnir að kaupa sér lyf af því kynlíf örvar þá ekki nóg. Þeir ná ekki að halda reisn og þeir ná ekki að fá fullnægingu af því þeir eru búnir að horfa á svo mikið af grófu klámi að kynlíf dugar ekki til. Í rannsókninni okkar nefndu strákarnir lyf sem heitir kamagra sem þeir sögðust kaupa í gegnum netið og væru alltaf með á sér ‚ef þeir dyttu í lukkupottinn‘,“ segir Kolbrún.

Línur milli kynlífs og ofbeldis óljósar

Þá sýni erlendar rannsóknir að þetta hafi einnig veruleg áhrif á samskipti í kynlífi. „Nýjar erlendar rannsóknir benda til þess að strákar sem horfi mikið á klám finnist hlutir eins og nánd, forleikur og kossar óeftirsóknarverðir. Þeir vilji bara ‚hardcore‘ samfarir eða munnmök, auk þess sem þeir lýsa auknum áhuga á kynlífi þar sem valdaójafnvægi er mikið, vilja grípa fast um háls bólfélaga, sprauta sæði beint í andlit, færa lim beint úr endaþarmi í munn og fleira sem er á mörkum þess að megi kalla hreint ofbeldi.“

Kolbrún segir mikilvægt að gripið sé inn í, að kynlífsfræðsla sé bætt og að tala þurfi um kynlíf við börn og unglinga á þeim nótum a það eigi að vera gott og byggja á jafnræði þar sem allir njóti sín. „Börnin okkar eiga betra skilið en þetta.“

„Við þurfum að taka höndum saman, foreldrar og skólakerfið, og hjálpast að. Við þurfum að tala á einlægan og opinskáan hátt um kynlíf, fræða börnin betur með markvissari fræðslu og aðkomu fleiri fagaðila. Við þurfum að standa saman í þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert