Úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald vegna …
Karlmaður á fertugsaldri hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald vegna rannsóknar á ætluðu kynferðisbroti, líkamsárás og heimilisofbeldi.

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi þriggja vikna gæsluvarðhald, eða til 8. nóvember, að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar á ætluðu kynferðisbroti, líkamsárás og heimilisofbeldi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni. 

Maðurinn var handtekinn fyrr í mánuðinum eftir að tilkynning barst um málið, en lögreglan fór þá á vettvang í húsnæði í vesturhluta borgarinnar og hitti þar fyrir brotaþola, sem var fluttur á slysadeild. Maðurinn var þá hvergi sjáanlegur, en hann fannst svo eftir leit í íbúð í öðru hverfi borgarinnar. Rannsókn málsins hefur miðað vel og er langt komin, segir ennfremur. 

Í öðru kynferðisbrotamáli sem einnig er til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að karlmaður á fertugsaldri, sem var úrskurðaður í sex daga gæsluvarðhald um síðustu helgi á grundvelli rannsóknarhagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á ætluðu kynferðisbroti, er laus úr haldi. Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn rann út í dag.

Rannsókn málsins miðar vel og er langt komin. Búið er að yfirheyra alla sem eiga hlut að máli auk þess sem skýrslur voru teknar af fjórum börnum í Barnahúsi. Þetta kemur ennfremur fram í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert