Feginn að verða taugaóstyrkur

Joshua Bell verður í Hörpu á sunnudagskvöldið.
Joshua Bell verður í Hörpu á sunnudagskvöldið. Ljósmynd/Marc Hom

„Að finna nýjar áskoranir og fara út fyrir þægindarammann. Það er lykilatriðið,“ svarar einn fremsti fiðlari heims spurður hvað hvetji hann áfram eftir alla þessa sigra og allan þennan tíma. Hann kemur fram á tónleikum ásamt píanistanum Alessio Bax í Hörpu á sunnudagskvöldið klukkan 19.30.

„Ég tók við sem tónlistarstjórnandi Academy of St Martin in the Fields árið 2011 og það hefur verið mikil áskorun,“ heldur hann áfram „Ég hef líka verið að stjórna í auknum mæli annars staðar; fyrir tveimur vikum stjórnaði ég Dallassinfóníunni án þess að vera með fiðluna í för. Ég er farinn að gera svolítið meira af því. Þetta breikkar sýn mína á tónlistina og gefur mér heilmikið. Ég gæti auðveldlega verið að spila Tjajkovskíj-konserta í hverri viku, nú eða Brahms og Beethoven, og haft það notalegt. En þannig þrífst ég ekki; ég verð alltaf að teygja mig eftir nýjum áskorunum og finna fyrir taugunum. Það heldur mér við efnið.“

 – Þú nefnir taugar. Verðurðu ennþá taugaóstyrkur áður en þú ferð á svið?

 „Heldur betur, í hvert einasta skipti,“ svarar Bell hlæjandi. „Mismikið að vísu en ég verð alltaf jafn feginn þegar þessi tilfinning hellist yfir mig; það er nefnilega varla hægt að hugsa sér neitt betra í þessum heimi en að verða taugaóstyrkur. Það er eins og lyf, í vissum skilningi. Ég er ekki að tala um hræðslu heldur eftirvæntingu. Og fyrir hana lifi ég. Ég vona innilega að þessi tilfinning hverfi aldrei; að stíga á svið má aldrei verða eins og að ganga inn á skrifstofuna.“

Virkjum andlegu hliðina

Samkeppnin um athygli okkar mannanna hefur aldrei verið meiri á tækniöldinni sem upp er runnin. Það leiðir hugann að því hvort sígild tónlist eigi alltaf jafn mikið erindi og hvort hún sé undir samkeppnina búin. 

 „Hún á svo sannarlega erindi,“ segir Bell af miklum þunga. „Ef eitthvað er þá þurfum við meira á henni að halda en nokkru sinni. Við lifum á tímum þar sem tækni er allt í kringum okkur. Láttu mig þekkja það, ég á þrjú börn sem eru háð spjaldtölvunum sínum. Sjálfur er ég raunar tæknifrík og hef reynt þetta á eigin skinni. Einmitt þess vegna þurfum við að virkja hina andlegu hlið okkar og hefja okkur upp yfir hversdaginn og hvað er betur til þess fallið en góð tónlist? Þetta á ekki síst við um lifandi tónlistarflutning; við þurfum á þessu að halda og ekki síður börnin okkar. Það hjálpar þeim að einbeita sér og tengjast hvert öðru sem er mjög mikilvægt á tímum þar sem allir eru meira og minna í sínum sýndarheimi. Einmitt þess vegna ætti skólakerfið að leggja enn meiri áherslu á tónlist og listir almennt en gert hefur verið í stað þess að skera þetta námsefni fyrst niður, eins og því miður er alltof oft gert í Bandaríkjunum, þegar harðnar á dalnum.“

Nánar er rætt við Joshua Bell í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert