Fleiri mál en umhverfismál komast að

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýr varaformaður Vinstri grænna.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýr varaformaður Vinstri grænna. mbl.is/Hari

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, nýkjörinn varaformaður Vinstri grænna, segist mjög þakklátur fyrir þann mikla stuðning sem hann hlaut í embætti varaformanns flokksins. Guðmundur var einn í framboði, en flokksmenn höfðu vitanlega möguleika á að sitja hjá við atkvæðagreiðsluna. Það gerðu þó aðeins fimm, og var Guðmundur því kjörinn með 97,4% atkvæða.

„Ég lít á þetta sem mikinn stuðning við mína vinnu og okkar í [umhverfis-]ráðuneytinu,“ segir Guðmdundur og svarar því aðspurður að stefnan sé nú að fara fram í þingkosningum á þarnæsta ári.

Spurður hvort breytinga megi vænta úr forystusveit flokksins, segir Guðmundur að kannski megi helst nefna að þar séu nú einni sterkri og umhverfisvænni röddinni fleiri. Þótt umhverfis- og náttúruverndarmál séu hans ær og kýr komast fleiri mál að, segir Guðmundur, og nefnir meðal annars mannréttindi og stöðu minnihlutahópa sem séu honum hjartans mál.

„Það er gott að þessi áhersla komi sterk inn og ég finn mikinn samhljóm hér á landsfundinum, og sömuleiðis í formanninum sem er mjög sterk,“ segir Guðmundur að lokum.

Landsfundur Vinstri grænna stendur yfir í dag og á morgun, en auk varaformannskjörsins var kosið til ritara og gjaldkera fyrr í dag, auk þess sem Katrín Jakobsdóttir var endurkjörin formaður flokksins.

mbl.is

Bloggað um fréttina